«

»

Molar um málfar og miðla 1598

 

K.Þ. skrifaði (20.10.2014): ,,Ég var að lesa blogg:

http://jonmagnusson.blog.is/blog/jonmagnusson/entry/1477456/

Þessi texti vakti athygli mína:

„Sigmundi hefur allt frá því að kjósendur í Norðausturkjördæmi sýndu honum þann sóma að kjósa hann þingmann sinn fundist að æ sé gjöf til gjalda.“

Hvernig er annars þetta máltæki? Ég hélt að það væri „Æ sér gjöf til gjalda“ og því ætti að standa „sjái“ í þessum texta, en ekki „Æ er gjöf til gjalda“. Þetta er greinilega vandmeðfarið.” Molaskrifari getur litlu svarað öðru en að vísa til orðabókarinnar þar sem segir: Æ sér gjöf til gjalda, sá sem gefur gjöf býst við endurgjaldi. Hann hefði hinsvegar ekki hnotið um orðalagið sem notað er í blogginu, sem til er vitnað.

 

Molaskrifara finnst það óskiljanleg og órökstudd ákvörðun dagskrárstjórnenda Ríkisjónvarps að flytja veðurfregnir aftur fyrir sérstakan íþróttafréttaþátt í lok kvöldfréttatímans. Þannig er eiginlega verið að neyða þá sem vilja horfa á veðurfréttir til að horfa fyrst á íþróttafréttir. Hver óskaði eftir þessari breytingu? Er þetta bara enn eitt dæmið um völd íþróttadeildarinnar í Ríkissjónvarpinu í Efstaleiti yfir dagskránni?

 

Molaskrifari er svo íhaldssamur, að þegar talað er í fréttum um hækkandi verðlag á heilbrigðisþjónustu finnst honum ekki við hæfi að tala um að  tilgreind þjónusta sé ,,tæpum þúsund kalli dýrari, en …” Svona var til orða tekið í seinni fréttum Ríkissjónvarps (20.10.2014). Vanda ber málfar í fréttum. Þótt gott og gilt sé að tala um þúsundkalla í  spjalli milli manna  á það orð ekki erindi í fréttatexta.

 

Hér er svo annað bréf frá K.Þ. (20.010.2014) , sem tengist dæmi er hann nýlega benti á:

 

http://eyjan.pressan.is/frettir/2014/10/20/bjarni-ser-fyrir-ser-fljotandi-gjaldmidil-med-varudarradstofunum-afnam-hafta-i-skrefum/

„Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir vel koma til greina að byrjað verði að afnema gjaldeyrishöft í skrefum áður en stærstu vandamálin þeim tengdum verða leyst.“

Enn vefst þetta sama orðalag fyrir blaðamönnum. Það er eins og að þegar orðið „tengdur“ er notað í texta þá fari blaðamenn í beygingarfrí og riti orðmyndina „tengdum“ án hugsunar!”

Molaskrifari Þakkar K. Þ ábendinguna.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>