Molavin sendi eftirfarandi (21.10.2014) : „Ekki liggur ljóst fyrir hversu háar upphæðir maðurinn er talinn hafa stungið undan.“ Þetta er úr Vísisfrétt 21.10.2014. Dæmi af þessu tagi, þar sem fréttamenn kunna ekki að beita einföldustu beygingarreglum, má finna daglega í fjölmiðlum. Þarna ætti vitaskuld að standa: „…hversu háum upphæðum…“ Enn betra væri að segja „hversu miklu fé…“ Vinnuálag og hraði er engin afsökun. Þetta er fúsk, sem er því miður orðið upp á síðkastið einkenni íslenskra fjölmiðla. Á erlendum miðlum gilda oftast skýrar reglur um málfar og stíl og þar er ritstjórn m.a. fólgin í því að lesa fréttir yfir og lagfæra þær ef við á. Af hverju sætta Íslendingar sig við fúsk?”
Molaskrifari þakkar gott bréf. Við eigum ekki að sætta okkur við fúsk við eigum að gera kröfur til fjölmiðla. Kröfur um vandað málfar. Því svo læra börnin málið sem það er fyrir þeim haft.
Molavin beindi einnig athygli skrifara á frétt á vef Ríkisútvarpsins á þriðjudag (21.10.2014) en fyrirsögn fréttarinnar er: Skildi sálu sína eftir við ánna. Það er eiginlega erfitt að trúa þessu. En svona birti Ríkisútgarpið okkur þetta á vef sínum: http://www.ruv.is/mannlif/skildi-salu-sina-eftir-vid-anna
Við ána. Lýsandi dæmi um vond vinnubrögð. Skort á verkstjórn. Ekkert eftirlit með framleiðslunni. Ekkert gæðaeftirlit.
Í fréttum Stöðvar tvö (21.10.2014) um enn eina kafbátaleitina í sænska skerjagarðinum var talað um skip sem væru í landhelgi án tilkynningar. Heldur fannst Molaskrifara þetta klaufalega orðað. Átt var við skip í landhelgi sem ekki höfðu tilkynnt yfirvöldum um ferðir sínar.
í fréttum Ríkissjónvarps (21.10.2014) var sagt frá því að álftir ætu upp til agna korn á tugum hektara hjá kornræktarbændum. Tjón af þeirra völdum væri því umtalsvert en lítið unnt að gera því álftin væri hvarvetna alfriðuð vegna þess að hún væri fallegur fugl og syngi vel. Molaskrifar tekur undir það að falleg er álftin og heyrði ekki Steingrímur Thorsteinsson svanasöng á heiði? Þau hljóð sem Molaskrifari hefur heyrt frá álftum í byggð eða grennd við byggð getur hann þó varla flokkað undir söng, en það er kannski sérviska. Sumir kalla það garg. En kannski syngur svanurinn hvergi nema á heiðum?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar