«

»

Molar um málfar og miðla 199

   Alþingismaðurinn Lilja Mósesdóttir kallar sig rebel í viðtali við DV (13.11.2009) Orðið rebel er enska og þýðir uppreisnarmaður. Hversvegna þarf íslenskur þingmaður að sletta ensku á lesendur ? Getur hún ekki talað íslensku við Íslendinga ?  Finnst henni flott að sletta? Molaskrifari skilur ekki þjóðkjörna fulltrúa, sem svona tala til fólksins í landinu. 

Í Vefdv (13.11.2009) er fjallað um svokallað þjónustuhús á Hornströndum. Í fréttinni segir: Einnig gefst ferðafólki kostur á að vaska upp og þvo hendur.  Orðalagið  að þvo hendur finnst Molaskrifara  ógott. Betra væri að segja: … þvo sér um hendurnar.  Það  væri kannski betri íslenska að tala um að þvo upp, en að vaska upp og  uppvask  eru fyrir löngu orðin  hluti af málinu. Rétt eins og  viskastykki eða viskustykki!   

Össur skjaldar Ólaf Ragnar vegna orðuhneykslis, segir í fyrirsögn á AMX fréttaskýringavefnum (12.11.2009). Nafnorðið skjalda  þýðir á íslensku skjöldótt kýr, ekki er vitað til þess að það sé notað um aðrar dýrategundir. Sögnin að skjalda er ekki til í íslensku. Á ensku þýðir sögnin to shield að vernda. Þetta er óþarfur tilbúningur. Undir hitt skal svo tekið að framkoma  forseta Íslands gagnvart sendiherra Bandaríkjanna var til háborinnar skammar fyrir land og þjóð. Búið var að tilkynna sendiherranum að hún yrði sæmd fálkaorðunni. Hún var á leiðinni til Bessastaða, þegar hringt var frá forsetaskrifstofu og  efnislega sagt: Allt í plati. Þú færð enga fálkaorðu. Á þessari framkomu  þjóðhöfðingjans hefur aldrei fengist viðhlítandi skýring.

   Í auglýsingu á Stöð tvö, minnir mig, heyrði ég auglýstan  bulky lopa. Er ekki óþarfi að nota ensku til að auglýsa íslenskan lopa á Íslandi?

 Frá og með næsta sunnudag verður Skjár einn í læstri dagskrá, segir  Vefmoggi (12.11.2009). Hér ætti að standa: Frá og með næsta sunnudegi…Undarlega villa. 

 

 

Í fréttum Stöðvar tvö (12.11.2009) var talað um að brúa fjárlagagatið. Menn  brúa ekki göt. Menn brúa bil.  Bilin á að brúa heitir  sjálfsævisaga Halldórs E. Sigurðssonar  fv. ráðherra og er þar að væntanlega tilvísun  til Borgarfjarðarbrúar.  Menn stoppa í göt. Eða loka götum eins og sagt var ágætlega  í hádegisfréttum RÚV (13.11.2009) En sennilega eru allir hættir að stoppa í sokka, þannig að þetta gamla orðtak er líklega að hverfa úr málinu. Í sama fréttatíma var talað um að framkvæma viðskipti. Tilgerðarlegt orðalag.

  Í fréttum Skjás eins og Moggans var fjallað um (12.11.2009) að verið væri að breyta Skjá einum í áskriftarstöð. Við erum að detta í tíu þúsund , sagði talsmaður Skjásins og átti við að næstum tíu þúsund manns hefðu keypt áskrift. Að tala um að detta í tíu þúsund er unglingaslangur. 

 

Ríkisstjórnin ætlar að ná í einhverja 50 milljarða króna í ríkiskassann á næsta ári, sagði  fréttamaður RÚV sjónvarps (12.11.2009) í frétt um væntanlegar skattahækkanir.  Af hverju einhverja 50 milljarða ? Ef hann átti við um það bil 50 milljarða, þá átti hann að segja það. Að tala um einhverja 50 milljarða er málleysa. Fréttinni lauk fréttamaður svo með þessum orðum: Enn liggur síðan Icesave óbætt hjá garði.  Ef flett er upp í hinni ágætu bók Jóns G. Friðjónssonar um íslensk orðatiltæki, uppruna þeirra sögu og merkingu, Merg málsins, segir svo um þetta orðatiltæki á bls. 248: liggja /falla óbættur hjá garði, engar bætur koma fyrir einhvern/ enginn heldur uppi vörnum fyrir einhvern.  Molaskrifari fær ekki séð hvernig hægt er að nota þetta orðtak í þessu samhengi. Fréttamenn eiga að halda sig við þau  orð og orðtök sem þeir hafa vald á,- sem þeir skilja.


 
Sami fréttamaður sagði í hádegisfréttum RÚV (13.11.2009) að fjármálaráðherra hefði verið dulur á skattaáform ríkisstjórnarinnar,eða skattlagningaráform ríkisstjórnarinnar. Ekki gott mál að mati Molaskrifara. Fréttamaður hefði getað sagt að ráðherra hefði verið dulur um skattaáformin eða fátt viljað  segja. Svo er til orðtakið að draga ekki dulur á, að fela ekki , leyna ekki. 

 Blaðamenn, sem vilja vinna vel og vanda sig, nota orðabækur eða handbækur um íslenskt mál, þegar þeir eru í vafa. Margir gera það , – ekki nógu margir. Sumir telja sig ekki þurfa á slíkum bókakosti að halda. Þeir kunni allt og viti allt. Það gæti verið undirliggjandi sjúkdómur hjá  stöku manni í  Efstaleiti.

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Sigurður Hreiðar skrifar:

    Kannski er ég mitt á milli ykkar í aldri, Helga. Veit reyndar ekki hver aldur ykkar er. En ég á samt íslenska orðabók, og þar stendur þetta um að draga dulur á: fara dult með eitthvað.

    Og hefur ekkert með tuskur að gera.

    Það er nefnilega þjóðráð að fletta upp heimildum áður en maður fer að fara með fleipur. Það hélt ég vera nokkuð sem lærist með aldrinum.

  2. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

    Enginn er óskeikull, Helga. Flettu samt upp í Merg  málsins eftir Jón G. Friðjónsson bls. 147-148 í  2. útgáfu  frá árinu 2006.

  3. Hersir skrifar:

    Enn þegar að orðið rebel er löngu orðið hluti af talmálinu er þá ekki sjálfsagt að hún tali til fólks á því máli sem fólk notar, í stað þess að tala eitthvað helgislepjumál eins og Ólafur Ragnar.

  4. Helga Kristjánsdóttir skrifar:

      Ekki óskeikull frekar en ég.

  5. Helga Kristjánsdóttir skrifar:

      „Að þvo hendur finnst Molaskrifara ógott“, mér finndist það ekki gott.
      „Svo er til orðatiltækið að draga ekki dulur á“. Ég er ekki með neina orðabók,er 5 árum eldri en þú, samt sé ég villuna. Við segjum ekki dulur,erum við að draga einhverjar tuskur eða hvað?   Ég dreg enga dul á að þú ert ekki óskeikull. 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>