«

»

Molar um málfar og miðla 227

 

Margt var gott um fyrri hluta heimildamyndarinnar um það þegar þýskur  kafbátur sökkti Goðafossi  út af  Garðskaga   í nóvember 1944. Hún var vel og fagmannlega gerð. Það var hinsvegar  nærri hámarki smekkleysis  hjá sjónvarpi ríksins að sýna  rétt á undan  auglýsingu  frá  Eimskipafélagi  Íslands  þar sem sungið var :  „Þá var hlegið  við störfin um borð.“  Ótrúlegt.

Það sem einkum gaf þessari mynd gildi var ítarleg leit að gömlum kvikmyndum og ljósmyndum sem   færðu hana  nær okkur.Vel unnið verk sem bar góðan árangur. Nokkur  lýti  voru í texta. Tvisvar var talað  um áhafnarmeðlimi,  þegar betur hefði verið talað um skipverja. Einu sinni var talað um áhafnarmenn. Fleira mætti nefna.Verður ekki gert. 

Á forsíðum blaða, sem  brugðið var upp,  Mogga og Þjóðvilja,   sást að  Mogginn hefur  löngum haft eigin ritreglur. Þar var sagt: Þýzkur kafbátur  sökti Goðafoss. Hefði átt að vera sökkti  Goðafossi. Í   fyrirsögn Þjóðviljans var sagt: Þýzkur kafbátur sökkvir  Goðafossi. – Vitnað er í fyrirsagnirnar eftir minni,  en efnisatriðin voru  svona.

Skrítið fannst gömlum Garðbúa að heyra talað um þorpið Garð, en í sjálfu sér ekkert  rangt við það.Þótt nú á dögum heiti þetta Sveitarfélgagið Garður,   en hét áður bara   Garðurinn.

Þessi mynd vakti minningu í huga þess  er þetta ritar frá því  er þessi hörmungaatburður  gerðist. Guðmundur Guðjónsson, bifreiðarstjóri,  móðurbróðir  minn   í Réttarholti í Garði  átti leið til Reykjavíkur rétt eftir þetta. Ég sé hann fyrir mér sitjandi uppi á eldhúsborðinu á  Skeggjagötu  19 í Norðurmýrinni og  lýsa því hvernig þeir nokkrir  félagar horfðu úr nýreistum Garðaskagavita á  Goðafoss  sökkva. Einkennilegast fannst mér, að heyra að skipið  hefði  risið upp á  endann og sokkið  þannig. Það olli  nýlega fimm ára snáða miklum  vangaveltum. Í kynningu á  myndinni sýnist mér að rætt verði  í seinni hlutanum við heiðursmanninn Guðna Ingimundarson  frá Garðsstöðum, sem var örugglega einn þeirra  sem var  uppi í vitanum þennan örlagaríka dag.

Þessi mynd vakti líka aðra minningu frá því fyrr á árinu  1944 ,þegar sá sem þetta ritar var  fjögurra ára. Foreldrar mínir  höfðu farið í leikhús, – eitthvað sem gerðist kannski einu sinni  eða tvisvar á ári. Iðnó var þá eina leikhúsið. Á leiðinni úr Iðnó  á leið í strætó, Njálsgötu – Gunnarsbraut á Lækjartorgi,fundu þau karlmannsúr í Lækjargötunni , armbandsúr eins og þá  var kallað.  Þau vildu koma  úrinu til skila og fylgdust  með Tapað-Fundið í smáauglýsingum Vísis. Þar var  nokkru  síðar auglýst eftir úri  sem hefði tapast í grennd við Iðnó Við höfðum  þá ekki síma. Það gerðist ekki  fyrr en  tíu árum síðar. En  farið var til góðra granna og hringt. Þetta reyndist úrið.  Dætur eiganda komu og sóttu það. Minnist nú ekki fundarlauna eða mikils  þakklætis. Er reyndar næasta viss um það var ekki eigandi  úrrsins  sem  glataði þvi, – heldur miklu yngra  fólk.   Eigandi úrsins var Hafliði Jónsson  fyrsti vélstjóri á  Goðafossi sem fórst svo með skipi sínu í nóvember þetta sama ár.

Snilldarverk  Jökuls Jakobssonar Hart í bak var svo á dagskrá  næst á eftir  myndinni um Goðafoss, en  baksvið og grunnur  þess  verks  eru örlög og harmsagan um okkar fyrsta Goðafoss. Umdeilanleg  efnisröðun á dagskrá að  ekki sé meira sagt. Þar  fór stórleikarinn,   minn góði vinur  Suðurnesjamaðurinn Gunnar Eyjólfsson burðarásinn. Sá hann  reyndar  fyrst á  sviði í Gúttó í Garðinum    sumarið 1948.   svona  er maður orðinn Gamall.. Þá  fór flokkur ungra leikara um landið og sýndi  held ég Candide,  Þau kölluðu sig  Sex í bíl,Gott ef bíllinn varekki hálfkassabíll, amerískur Reo. Líklega gengi það ekki núna að kalla  leikflokk Sex í bil.  1948 voru líklegar næsta  fáir sem vissu að enska orðið sex   er ekki það sama og    sex á íslensku.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>