Bjarni Sigtryggsson sendi Molum eftirfarandi: Í fréttum RÚV sjónvarps las fréttaþulur (22.12.20009) eins og rétt mál væri að bíða milli ótta og vonar. Ekki venjubundið orðalag. Við tölum um að bíða milli vonar og ótta. Þetta var hinsvegar rétt í skjátexta.
Því er svo við að bæta að í fréttum RUV síðustu tvö dægur hefur ítrekað
verið reynt að sprengja flugvél á flugi „í loft upp.“
Ben. Ax. sendi eftirfarandi:
Höfundur: Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson) (http://benax.blog.is/)
Oftar en einu sinni hef ég heyrt talað um að eitthvað sé
hægt og sígandi á uppleið. Það held ég að sé ekki hægt. Sagt hefur verið að
eitt og annað sé kýrskýrt. Í mínu ungdæmi þýddi kýrskýr nautheimskur.
Forðum var frá því sagt að lögreglan hefði handtekið mann sem var með
grunsamlega ávísun. Þá var ort:
Mér finnst lögreglan okkar aldrei treg,
ekki vil ég hana á nokkurn hátt lasta.
En úr því að ávísunin var grunsamleg
af hverju tóku þeir hana þá ekki fasta?
Annar dyggur lesandi Mola sendi eftirfarandi : Á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag (28.12.2009) eru leikjum í NBA-deildinni í körfubolta gerð skil. Þar er ítrekað talað um að leikmenn hafi gert stig en ekki skorað stig. Í mínum eyrum hljómar þetta álíka ankannalega og að gera mat í staðinn fyrir að elda hann. – Já líklega er best að gera sér egg með hamborgaranum í kvöld !
Úr mbl.is (29.12.2009)Utanríkisráðuneytið hefur verið í sambandi við og aðstoðað íslenskan karl og konu sem handtekin voru í Madríd á Spáni í gegnum ræðismann Íslands í borginni. Ekki mjög skýrt orðað. Úr sama miðli sama dag: Hannesi Sigmarssyni hefur verið sagt upp störfum sem yfirlæknir við Heilsugæslu Fjarðabyggðar á Eskifirði. Orðið yfirlæknir ætti eftir máltilfinningu Molaskrifara þarna að vera í þágufalli. – yfirlækni.
Í kvöldfréttum útvarps ríksins (29.12.2009) var sagt efnislega … þegar skattalagabeytingarnar byrja að bíta eftir áramót Að nota sögnina að bíta í þessu sambandi er gildishlaðið orðalag,sem ekki á heima í fréttum þar sem menn stæra sig af af fagmennsku.
Glysgirnin í klæðaburði undirstrikar alvöruleysið í Kastljósi (29.12.2009) sjónvarps ríkisins.
GLEÐILEGT OG GÆFURÍKT ár, – kærar þakkir fyrir samskiptin á árinu sem er að kveðja.
Skildu eftir svar