«

»

Molar um málfar og miðla 272

Í ágætum morgunþætti Rásar eitt   Víðu og breiðu (17.03.2010) var sagt, að á vef RÚV  væri frétt um, að  hugsanlega yrði  nýtt afvopnunarsamkomulag Bandaríkjamanna og Rússa undirritað í Reykjavík. Nánar yrði líklega fjallað um málið í áttafréttum. Ekki var orð um málið í áttafréttum. Þegar vefur RÚV var skoðaður var fréttin vissulega  þar.  Undir fréttaflokknum Neytendamál !  Það  er  sjálfsagt rétt, að afvopnunarmál séu neytendamál, en  svolítið er þetta nú skondið. Stundum veit  vinstri hönd RÚV ekkert um hvað sú hægri gerir.

Í  tíufréttum RÚV (14.03.2010) var sagt frá  ósannri frétt sem  sjónvarpsstöð í Georgíu hafði flutt. Fréttin var kölluð uppspunafrétt. Það var  vel að orði komist.  Fréttin var vel  skrifuð og vel flutt.

 Verslunin Ylva á Korputorgi, sem gárungarnir kalla  Krepputorg, lýgur í auglýsingu, sem nú  dynur í eyrum hlustenda. Verslunin segist afnema  virðisaukaskatt af öllum vörum um helgina. Verslunin getur ekki afnumið virðisaukaskatt af einu né neinu. Skatturinn er lögbundinn. Verslunin getur  hinsvegar veitt afslátt, sem nemur virðisaukaskattsprósentunni. Það er allt annað mál.  Þetta orðalag í auglýsingum er hinsvegar ekki einsdæmi og hefur stundum verið nefnt hér áður.

Unglingar hafa, og hafa líklega alltaf haft sitt eigið  málfar. Það er voða  kúl að  vera tanaður, sagði ungur piltur  í fréttum Stöðvar tvö(14.03.2010). Verið var að ræða  við unglinga  um notkun ljósabekkja, brúnkubekkja.

Úr íþróttafréttum RÚV  (14.03.2010): Síðari hálfleikur  var aðeins hálfrar mínútu gamall, þegar…!  Aðeins var liðin hálf mínúta af síðari hálfleik, þegar…Og :  …verða viðurkenndari  en áður var… !  Njóta aukinnar viðkenningar.

  Dagskrárkynnir , þula, RÚV   Sjónvarps sagði (14.03.2010): Svo verður Silfur  Egils í endursýningu klukkan…   Þátturinn verður ekkert í endursýningu. Hann verður endursýndur klukkan….

 Þegar Molaskrifari  sat á  Alþingi  1978 til  1993  tíðkaðist  ekki að segja  frá þingmálum  áður en  málin voru  formlega flutt á  Alþingi , það er að segja  þingskjal  prentað og  dreift  til  þingmanna.  Nú er þetta breytt. Nú  flytja þingmenn málin fyrst í  fjölmiðlum og svo á Alþingi.  Að vísu man   Molaskrifari  eina undantekningu frá þessu í sinni þingtíð. Þá  hafði  þingflokkur  Alþýðuflokksins lagt inn   þingsályktunartillögu  til skjalavarðar.  Formaður þingflokks  Alþýðubandalagsins, hafði spurnir  af þessu og   hafði samband við  fréttastofu RÚV og   sagði fréttamanni, að Alþýðubandalagið   ætlaði að flytja  tillögu um þetta sama mál.  Það var svo  fyrsta frétt í  kvöldfréttartíma  Ríkisútvarpsins. Þingflokksformaður Alþýðubandalagsins þá hét Ólafur Ragnar Grímsson.  Ólafur Ragnar gat stundum  spilað á  fjölmiðlamenn  eins og  fiðlu, — meðan Róm brann.

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Kristinn R. Ólafsson skrifar:

    Heill og sæll:
    Einhvernveginn stríðir það gegn máltilfinningu minni að láta “vítt og breitt” taka beygingu einsog þú gerir í upphafi góðs pistils í dag: Í ágætum morgunþætti Rásar eitt Víðu og breiðu. Er “vítt og breitt” ekki það sem kallast atviksliður? Og væri þetta ekki samskonar og t.d. “statt og stöðugt”. Ef til væri útvarpsþáttur sem héti “Statt og stöðugt” segði maður varla: Ég heyrði þetta í Stöddu og stöðugu. Eða hvað?
    Með bestu kveðju frá Madríd

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>