Í íslensku eru mörg föst orðasambönd. Þeir sem skrifa og segja fréttir verða að kunna skil á þeim algengustu. Í síðdegisfréttum RÚV ( Klukkan 16 00 19.03.2010) sagði fréttamaður: … eftir að viðræður runnu út um þúfur á þriðja tímanum í dag. Hér er ruglað rækilega saman tveimur orðatiltækjum. Það er ekkert til sem heitir að renna út um þúfur. Hér hefði átt að segja, að viðræður hefðu farið út um þúfur, samningamönnum mistekist að ná samkomulagi. Eða að sáttatilraunir hefðu runnið út í sandinn, — það er að segja: Ekki leitt til niðurstöðu,ekkert orðið úr þeim, þær mistekist.
Í fréttum Stöðvar tvö (16.03.2010) var fjallað um súkkulaði,sem notað er til sælgætisgerðar hér á landi og fullyrðingar um ,að börnum væri þrælað út við uppskerustörf þar sem kakóbaunir vaxa, en baunirnar eru aðalhráefnið í súkkulaði. Fréttamaður Stöðvar tvö sagði , að súkkulaðið kæmi frá svissneskum birgja. Birgir er fyrirtæki, sem sér öðrum fyrirtækjum fyrir aðföngum. Það beygist í eintölu birgir, birgi, birgi, birgis. Fleirtala, birgjar, birgja, birgjum, birgja. Ekki fleiri orð um það.
Molaskrifari er örugglega ekki sá eini, sem hrekkur svolítið við, þegar fréttaþulir lesa einhverja vitleysu, án þess að depla auga; hlusta ekki á hvað þeir eru að segja, heldur lesa vélrænt og hugsunarlaust. Í sjöfréttum RÚV sjónvarps (16.03.20120) sagði fréttaþulur okkur, að tekist væri á um 1600 landnemabyggðir gyðinga í austurhluta borgarinnar (Jerúsalem). Þetta er auðvitað út í hött. Byggð er byggt landsvæði, sveit eða hérað.
Mbl.is fjallaði einnig um þessi átök og sagði: Palestínumenn köstuðu grjóti að ísraelskum lögreglumönnum í austurhluta Jerúsalem í dag til að mótmæla enduropnun hinu fornu Hurva samkunduhúsi gyðinga. Hér átti að segja: …mótmæla enduropnun hins forna Hurva samkunduhúss gyðinga… Mbl.is sagði líka og réttilega : Átökin auka enn á þá spennu sem komin er upp vegna fyrirhugaðrar nýrrar landnemabyggðar Ísraela á hernumdum svæðum Palestínumanna.
Átökin eru vegna nýrrar landnemabyggðar, en ekki vegna 1600 landnemabyggða. Það er hinsvegar svo, að í þessari nýju landnemabyggð eiga að vera 1600 nýjar íbúðir (1600 new homes, sagði á fréttavef BBC 16.03.2010). Þetta hefur raunar komið margsinnis fram í fréttum undanfarna daga. Þeir, sem lesa fréttir, þurfa líka að hlusta á fréttir.
Þetta var lesið athugasemdalaust, óbreytt, síðar um kvöldið í seinni sjónvarpsfréttum RÚV.
Í þættinum Íslandi í dag á Stöð tvö (15.03.2010) var rætt við Íslending,sem rekur veitingahús í Kaupmannahöfn. Segðu okkur aðeins frá konseptinu, sagði spyrill Stöðvar tvö. Sá sem varð fyrir svörum talaði um tsjallens og aktivan part af konseptinu. Í sama þætti var frá því sagt að hér á landi væri byrjað að kenna smábörnum ensku í skólum svokallaðrar Hjallastefnu. Það er svo sem góðra gjalda vert að börn læri snemma erlend tungumál. En kannski væri rétt að leggja ríkari áherslu á að kenna þeim móðurmálið, áður en byrjað er að kenna þeim erlend mál.
Af visir.is (16.03.2010): Alls hafa 28 málum lögaðila, sem grunaðir eru um brot á gjaldeyrislögum, verið vísað til Fjármálaeftirlitsins samkvæmt Gylfa Magnússyni, viðskiptaráðherra. Við þessa setningu er að minnsta kosti tvennt að athuga. Þarna ætti að standa: Alls hefur málum 28 lögaðila ..verið vísað.. Í öðru lagi finnst Molaskrifara slæmt mál að segja: .. samkvæmt Gylfa Magnússyni viðskiptaráðherra. Betra hefði verið: .. að sögn Gylfa Magnússonar viðskiptaráðherra.
Skildu eftir svar