«

»

Molar um málfar og miðla 274

Laun verkafólks hækkaði mest,sagði í fyrirsögn á mbl.is (18.03.2010). Orðið laun er ekki til eintölu. Svo einfalt er nú það. Þessvegna  hefði fyrirsögnin átt að vera: Laun verkafólks hækkuðu mest. 

 Molaskrifari lætur lesendum eftir að dæma eftirfarandi málsgrein (visir.is 18.03.2010): Þótt aðeins séu um 13 kílómetrar milli Bakkafjöru í Landeyjum og Heimaey hefur hafnleysið á Suðurlandi komið í veg fyrir að þessi stutta vegalengd gæti nýst til og frá lands og eyjar. Því hefur þurft að sigla Herjólfi frá Þorlákshöfn til og frá eyjum en sigling þar á milli tekur um þrjá tíma. Nú grillir í að þessi siglingatími muni styttast verulega. Stefnt er að því að höfnin verði tekin í notkun 1. júlí.
 Þessi málsgrein er um það bil  helmingur fréttarinnar, en  fréttinni fylgja  tvær myndir,sem  fréttaskrifarinn segir, að  TF SIF  , eftirlits- og björgunarflugvél Landhelgisgæslunnar hafi tekið. Það var og. Flugvélin tók myndirnar !

 Mjög fer vaxandi, að talað sé um að fara erlendis. Þetta mátti heyra oftar en einu sinni í  morgunþætti Rásar  tvö (17.03.2010). Í Íslenskri orðabók er  þetta merki l? framan við  þessa merkingu orðtaksins – orð eða málatriði sem ekki nýtur fullrar viðurkenningar, telst ekki gott mál í venjulegu samhengi.  Venjuleg notkun orðsins  erlendis í íslensku er  staðbundin, –  að vera í útlöndum, dveljast erlendis.  Við segjum  hinsvegar að fara utan, að fara til útlanda. Við dveljumst  (ekki: dveljum) erlendis.

 Í útvarpi, annaðhvort Útvarpi Sögu eða Rás tvö, líklega frekar Sögu, ( 17.03.2010) var talað um orðið einelti eins og það  væri tiltölulega  nýtt í íslensku. Orðið einelti og að leggja í  einelti kemur  fyrst  fyrir í íslensku ritmáli árið 1707. Hinsvegar er það nýtt, að  opinská umræða  skuli fara  fram  um það hvernig  berjast skuli gegn  einelti  í skólum og á  vinnustöðum. Sú umræða er af hinu góða. Við eigum að  sameinast um að uppræta einelti.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>