«

»

Molar um málfar og miðla 275

Tvennt  fannst Molaskrifara einkennilegt í baksíðufrétt Morgunblaðsins  (22.03.2010) þar sem  sagt var frá því,  að rannsóknaskipið Árni Friðriksson hefði fengið  framhluta  trillu í veiðarfæri í Faxaflóa. Fyrst var  fyrirsögnin: „„Veiddu“ upp lúkarskappa“.  Það er út í hött að tala um að „veiða“ upp, þegar  brak úr  skipi kemur í veiðarfæri.  Seinna í fréttinni  segir : Annars var þetta bara lítill hluti hræsins..  Hræ  er  dauður líkami.  Þetta var hluti skipsflaks. Ekki hræ.  Ekki hefði Matthíasi líkað þetta. 

Ríkisútvarpið -Sjónvarp keppist við að auglýsa  bjórþamb í trássi við landslög. Nýlega var  bjórþambið auglýst í miðju  Kastljósi. Oft hefur verið vikið að lögbrotum Ríkisútvarpsins  í þessum Molum.  Bjarni Sigtryggsson sendi Molum eftirfarandi (22.03.2010) :

Tók eftir því í Kastljósi rétt í þessu að þar auglýsti Carlsberg bjórþamb og drykkjuskap með stórri mynd af bjórflösku en stutta stund kom agnarsmátt letur þar sem sagði LÉTTÖL. Nú skilst mér að þetta margauglýsta Carlsberg léttöl sé erfitt að fá í Ríkinu og enn síður á krám, enda um blekkingu að ræða til þess að RUV komist hjá landslögum.
Molaskrifari bætir  við: Stjórnendur RÚV  brjóta lög og misbjóða eigendum fyrirtækisins með ýmsum hætti.

Stutt frétt í dv. is (18.03.2010)  um  embættismann í Norður Kóreu,sem leiddur var fyrir aftökusveit og skotinn, er morandi í villum. Þar segir : …var leiddur fyrir aftökusveit á dögunum og skotinn af færi. Talað er um að skjóta á færi, ekki af færi.  Næsta villa: ..ekki hefur tekist að staðfesta þetta þar sem Norður Kórea er mjög einangrað frá alþjóðasamfélaginu.   Norður Kórea er ekki einangrað, heldur einangruð frá  alþjóðasamfélaginu. Þriðja villan í þessari stuttu frétt: ..  í kjölfar mikillar hungursneiðar. Brauðsneið er með einföldu i, en hungursneyð (af nauð) með ypsiloni.  Það er erfitt að taka mark á, eða trúa,  svona illa skrifuðum texta.

Hún (ríkisstjórnin) er ekki að valda verkefninu, sagði formaður Sjálfstæðisflokksins í fréttum Stöðvar tvö (19.03.2010). Betur  hefði sá  góði maður, sagt: Ríkisstjórnin veldur  ekki verkefninu.  Nútíðarnafnháttarsýkinnar sér víða stað.

Ekki þarf lengi að lesa ýmsa netmiðla  til að  komast að raun um að  þar halda stundum á penna skrifarar,sem ekki   kunna grundvallaratriði málfræðinnar. Úr  dv.is (20.03.2010): Eldurinn læsti sig í fötum hans þegar hann kveikti á eldspýtu .. Hér ætti auðvitað að standa: Eldurinn læsti sig í  föt hans, þegar….

Beygingar einfaldra orða vefjast fyrir mönnum á dv.is (21.03.2010) Fréttin var um vindmyllur,sem ekki  duga vel  til raforkuframleiðslu: Ástæðan er hreinlega skortur á vind.  Það var og.  Skortur á vind !  Þarna var auðvitað átt við að staðviðri eða  stillt  veðrátta gerði að verkum að  vindmyllurnar framleiddu  ekki rafmagn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>