Í umræðunni um ræðutíma á Alþingi minnist ég þess ekki, að hafa heyrt að skipta beri ræðutíma eftir þingstyrk flokka. Sá háttur hefur ,að ég best veit all lengi verið viðhafður á í Stórþinginu í Noregi. Þar koma þingflokkar sér saman um að umræða um tiltekið stórmál skuli standa , — segjum í 20 klukkustundir og fara fram á þremur dögum. Flokkarnir fá síðan úthlutað ræðutíma eftir þingstyrk þannig að flokkur sem hefur 20% fylgi fær fjórar klukkustundir og svo framvegis. Þetta gerðu Norðmenn , muni ég rétt, í umræðum um EES samninginn.
Hér þvældist stjórnarandstaðan, einkum Alþýðubandalagið, fyrir eðlilegri afgreiðslu EES samningsins vikum saman. Nú eru nánast allir á einu máli um ágæti EES samningsins og það góða sem af honum hefur leitt.
Erfitt er að skilja tal um ofbeldi í umræðum um breytingar á þingskapalögum (sem svo sannarlega þarf að breyta) þegar vilji 54 þingmanna stendur til breytinga en 9 eru á móti. Það er ofvaxið mínum skilningi að hægt sé að kalla slíkt ofbeldi. Orð missa merkingu, þegar þau eru notuð með þessum hætti, – misnotuð ætti kannski frekar að segja.
Þau virðast seinlærð hin gömlu sannindi, að það er ekki hve lengi menn tala, heldur hvað menn segja sem skiptir máli.
Skildu eftir svar