«

»

Molar um málfar og miðla 335

– Þú telur að þetta hafi ollið skaða ?  Úr frétt mbl.is (23.06.2010). Nú ættu  verkstjórar á  ritstjórn mbl.is að brýna  fyrir blaðamönnum sínum að nota ekki sagnorð, sem þeir kunna ekki með að fara.  Hér hefði átt að standa: Þú telur að þetta hafi valdið skaða ?  Hið aldna og forðum   virðulega Morgunblað  verður nú æ oftar að athlægi  fyrir ambögur.

Ekki fellir Molaskrifari sig við orðalagið: „Valgerður segist sumsé hafa grunað allan tímann að gengistrygging lána væri ólögleg“, sem lesa má í DV (22.06.2010). Ég gruna ekki , heldur grunar mig. Því hefði verið betra að segja. Valgerður segir að sig hafi grunað allan tímann… eða: Valgerði grunaði allan tímann…

Morgunblaðið hefur á ný hafið birtingu soragreina Sverris Stormskers. Ekki er það  blaðinu til sóma.

Hugsanavillur  er ekki bara að finna  í pólitískum skrifum Morgunblaðsins. Slíkar villur er líka að finna í fréttum.  Úr mbl.is (23.06.2010): Rússar minnkuðu innflutning á gasi til Hvíta-Rússlands um 60% í morgun…  Rússar flytja út gas  til Hvíta Rússlands, en Hvíta Rússland flytur inn gas frá Rússlandi. 

  Kominn er til starfa  nýr  dagskrárstjóri Ríkissjónvarpsins, Sigrún Stefánsdóttir. Henni   er óskað velgengni í starfi. Vonandi ber hún gæfu til að standa vel  í  ístaðinu á  móti taumlausum yfirgangi íþrótta- og  auglýsingadeilda.

En það hvernig  staðið var að ráðningu nýs dagskrárstjóra, án auglýsingar, ber vott  um að Ríkisútvarpið er ekki lengur  OHF, opinbert hlutafélag, heldur EHF, einkahlutafélag.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>