«

»

Molar um málfar og miðla 336

Glöggur Molalesandi sendi eftirfarandi úr mbl.is (23.06.2010): „Fabio Capello landsliðsþjálfari Englendinga hrósaði leikmönnum sínum fyrir frábæra baráttu og góðum liðsanda þegar liðið lagði Slóvena 1:0, og tryggði sér þar með sæti í 16-liða úrslitum á HM.“ Þakka sendinguna. Fjólurnar blómstra  í Hádegismóum.

 Visir.is (23.06.2010): Stjórn RÚV mun svo hittast á þriðjudaginn og býst Páll við að ráðningin beri á góma þar…  Hér  hefði átt að standa: … og býst Páll við að ráðninguna  beri á góma þar. Ráðning á hér  að vera í þolfalli. Sjá.  t.d. Mergur  málsins, dr. Jón G. Friðjónsson , bls. 265.

 Úr dv.is (23.06.2010): Í tilkynningu frá Jafnréttisstofu segir að stofnuninni hafi á undanförnum dögum borist ábendingar og kvartanir vegna skorts á sýnileika kvenna við lýsingar á leikjum á HM í Suður Afríku.  Hann bregst ekki kansellístíllinn hjá stofnunum hins opinbera: Skortur á sýnileika kvenna!

 Í hádegisfréttum Bylgjunnar (24.06.2010)  sagði íþróttafréttamaður meðal annars:  Gerð verða  skil á  Visaleikjunum….  Eitt  núll   fyrir Englandi….   Vart verður sagt að þetta sé til  fyrirmyndar eða eftirbreytni.

Í hádegisfréttum RÚV (24.06.2010) talaði fréttaþulur réttilega  um fund  í Stjórnarráðshúsinu. Fréttamaður talaði hinsvegar um fund í  stjórnarráðinu og   eins  var  til orða tekið í sex fréttum RÚV sjónvarps.  Stjórnarráðið er samheiti yfir öll  ráðuneytin.  Forsætisráðuneytið er í Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg.

  Hér kemur uppskrift að kartöflusalati sem er ógurlega gott með silungi eða álíka sjávarfangi. Það var og ! Pressan.is, Veröld Mörtu (23.06.2010) Silungur úr sjó  er á íslensku nefndur sjóbirtingur. Ekki er talað um silung sem sjávarfang.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>