«

»

Molar um málfar og miðla 337

Í frumvarpi sem Siv Friðleifsdóttir hefur lagt fram á Alþingi er lagt til að tekin verði upp þingsköp af norskri fyrirmynd.(mbl.is 25.06.2010). Hér varð Morgunblaðinu það á að nota  ranga  forsetningu. Segja  ætti … norskri  fyrirmynd  ekki  af.   Þessi tillaga Sivjar er raunar eitt það skynsamlegasta,sem lengi hefur  komið fram á Alþingi. Molaskrifari  hefur lengi verið á því að þetta ætti að gera, – allar götur  síðan hann fylgdist með EES  umræðunum  í norska Stórþinginu. Þar var umræðutíminn  ákveðinn , svo og svo margar klukkustundir  sem  deildust á  tvo eða þrjá daga  dagar, man ekki hvort var. Það var gert  áður en umræðan hófst. Flokkarnir  fengu svo  ræðutíma eftir þingstyrk. Hér var  EES málið þæft vikum saman á Alþingi. Það var engum til sóma og hafði ekkert með málfrelsi að gera.  Þar fóru Alþýðubandalagsmenn fremstir í flokki. Þeir voru yfirleitt á móti  útlöndum.

 Að morgni dags (25.06.2010) var  í  Ríkisútvarpinu  talað um styrki til handa einstakra þingmanna. Þarna var orðinu  handa ofaukið.  Réttara hefði verið að tala um styrki til einstakra þingmanna.

 Gunnari Lárus Hjálmarssyni var nýverið sagt upp hjá Fréttablaðinu,segir  í   dv.is (25.06.2010). Þeim sem þetta skrifaði  er greinilega ekki ljóst að þágufall mannsnafnsins Lárus er  Lárusi, ekki Lárus.

Í skoðanakönnun frá mars, sagði fréttamaður  í tíu fréttum Ríkissjónvarps (24.06.2010) og átti líklega við,  að í skoðanakönnun  sem gerð var í mars…..  eða:  Í skoðanakönnun frá því í mars.

Kunnur bloggari og fyrrum þingmaður skrifar (25.06.2010): …að svo gæti farið að samningar fjármálastofnana um gengislán yrðu talin ólögmæt. Hér  er það orðið samningar,sem skiptir máli. Þess vegna ætti þarna að standa: .. að svo gæti farið að samningar fjármálastofnana um gengislán yrðu taldir ólögmætir. Ótrúlega algeng villa. Líklega oftar fljótfærni, fremur en vankunnátta.

 Það er  að mati Molaskrifara meira en lítið brenglað fréttamat, þegar  myndatökulið  er  sent á vettvang, þegar tuttugu manna hópur   fer niður á Austurvöll til að afhenda  forseta Alþingis  undirskriftir 700 einstaklinga. Það er engin frétt þótt gamlir róttæklingar byrsti sig,   ef  fólk þeim nákomið  þarf að bera ábyrgð á gerðum sínum.   Það er sömuleiðis fáránlegt ,að fjölmiðlar skuli kokgleypa fréttatilkynningu  frá  einhverjum sem kalla sig  Samtök lánþega, þar sem hvatt er   til áhlaups á alla  banka og fjármálastofnanir á Íslandi. Hversvegna kannar enginn fjölmiðill hvaða  samtök þetta eru , hve  fjölmenn og svo framvegis ?  Það er svívirðilegt ábyrgðarleysi  að hvetja til áhlaups á  banka og enn verra þegar  fjölmiðlar fjalla algjörlega gagnrýnilaust um slíkt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>