«

»

Molar um málfar og miðla 338

Úr knattspyrnulýsingu Ríkissjónvarpsins (26.06.2010): … fengu Suður Kóreumenn aðra sókn og hún lauk…  Þetta dæmi er kannski ekki það versta, þótt slæmt sé. Í gær  sýndi Ríkissjónvarpið  fótbolta og  kappakstur frá morgni til kvölds, nánast linnulaust.  Dagskrá seinkaði um hálftíma vegna framlengingar leiks  Bandaríkjanna og Ghana. Samt var hálftíma fótboltafroðusnakk að leik loknum látið  halda sér óstytt. Þar var lopinn teygður  og teygður. Þetta er með ólíkindum.

  Popppunktur átti að hefjast klukkan 21 05. Þegar hann loks hófst var dagskráin orðin 40 mínútum á eftir áætlun. Þá kom ein  lína á skjáinn um að dagskrá hefði seinkað um 30 mínútur. Það var rangt.  Enginn bað áhorfendur afsökunar á þessu rugli. Menn líta líklega svo stórt á sig í Efstaleitinu, að þeir þurfa ekki að biðja einn eða neinn afsökunar. Til hvers var þessari stofnun sett stjórn , — sem þiggur   dágóð laun, —   fyrir að gera hvað? Allavega ekki til að hafa hemil á starfsmönnum og sjá um að þeir sýni af sér  mannasiði í samskiptum við hlustendur/áhorfendur.

  Fótboltinn er hin heilaga  kýr  Ríkisútvarpsins. Við honum má ekki hrófla. Skítt með þá sem  vilja  auglýsta dagskrá. Fótboltinn hefur  forgang, — algjöran  forgang umfram allt annað.  Hjá Molaskrifara  er nú  mælirinn löngu fullur , — og skekinn. 

    Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins  (26.06.2010) var einkar ,,skrautleg“  frétt um  flokksráðsfund VG. Í fremur  stuttri frétt tókst fréttamanni að segja:  … aðildarumsókn í ESB (umsókn um aðild  að ESB),…auk orkumála og eignarhalds á þeim (…auk orkumála og eignarhalds á orku(lindum)), Fjölmargar tillögur liggja fyrir fundinn… (..liggja fyrir  fundinum)  … umsókn Íslands í ESB verði dregin til baka (aðildarumsókn Íslands að ESB verði dregin til baka)… er einn  flutningsmaður tillögunnar (..einn flutningsmanna tillögunnar).. atkvæðagreiðslur um ályktanir fundarins verða afgreiddar í dag… ( atkvæði verða greidd um ályktanir fundarins í dag). Atkvæðagreiðslur eru ekki afgreiddar.  Geri aðrir betur !   Málfarsráðunautur RÚV hefur verk að vinna.

  Réttilega var sagt í fréttum Ríkissjónvarps (26.06.2010),  að Jón Ásgeir Jóhannesson hefði ákveðið að taka til varna  í Lundúnum. Þetta var einnig  rétt á vef RÚV, en í hádegisfréttum útvarps talaði fréttaritari um að taka til varnar,sem er ekki í samræmi við þá  málvenju, sem Molaskrifari þekkir.

,,Okkur hlakkar til að heyra í hinni nýju borgarstjórn varðandi samráð og samstarf,“segir Guðrún. (visir.is 25.06.2010). Það er bara svona!

Pétur vill formanninn,er heldur  álappaleg fyrirsögn á mbl.is (26.06.2010). Það er vandi að semja fyrirsagnir svo vel sé. Sá sem samdi þessa er ekki þeim vanda vaxinn. Þótt sumir Sjálfstæðismenn skrifi nú langar lofrollur um hve gott Morgunblaðið sé orðið, hefur það  aldrei  verið lélegra en nú að mati Molaskrifara. Málfari í blaðinu hrakar dag frá degi.

  Molaskrifara er ekki skemmt, þegar hann heyrir lesnar auglýsingar frá  veitingastað í Reykjavík,sem kallar sig   enska heitinu  Just Food. Hann þyrfti að vera  nær dauða en lífi af hungri  til að leita sér matar á slíkum stað.

   Það vantar ekki lítillætið hjá þeim á Útvarpi  Sögu.  Þar  mátti skilja  umsjónarmann þáttarins  Ísland ögrum skorið (26.06.2020) svo, að Útvarp Saga hefði  komið Icesave málinu í höfn (í þjóðaratkvæðagreiðslu,sem var óskiljanlegt rugl frá upphafi), gert Jón Gnarr að borgarstjóra og  komið Pétri Blöndal í framboð til  formennsku í Sjálfstæðisflokknum með því sem Útvarp Saga   af einstakri ósvífni kallar skoðanakönnun !   Hann ,, vann könnunina“ , sagði umsjónarmaður, sem líka lét út úr sér gullkornið: ,,Okkur hefur orðið mikið áorkað“.  Þá  gafst Molaskrifari upp  og skipti yfir á Bylgjuna.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>