Ljósmynd RAX á forsíðu Morgunblaðsins (21.07.2010) er listaverk. Loftmynd sem sýnir Herjólf sigla inn í Landeyjahöfnina nýju.
Úr dv. is (18.07.2010): Fimmtán ára drengur á Englandi lét lífið þegar klesst var á hann á M23 hraðbrautinni í Vestur Sussex, Englandi. Þetta er óboðlegt orðalag. Barnamál. Í fréttinni kemur fram að ekið var á drenginn. Síðan óku margir bílar yfir lík drengsins á hraðbrautinni.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (19.7.2010) var rætt við mann sem var fróður um veiðar á laxi og silungi, þá var sagt: .. kennir ekki miklar breytingar frá í fyrra. Átt var við að veiði væri svipuð og í fyrra. Molaskrifara þykir þetta einkennilegt orðalag.
Í fréttum Stöðvar tvö (19.07.2010) var sagt:… og er nú farinn að gera tónlist með pabba sínum. Nú er spurt: Hvað er að gera tónlist? Er það að spila tónlist? Spyr sá sem ekki veit. Sennilega er hér um áhrif frá ensku ræða, ( e. make music.).
Ekki heyrði Molaskrifari betur en fréttamaður Ríkissjónvarps talaði um þar síðasta sumar í frétt um þá ákvörðun sjávarútvegsráðherra að gefa veiðar á úthafsrækja frjálsar. Molaskrifari veit ekki hvað þar síðasta sumar er. Er það sumarið í fyrra , fyrra sumar ? Í fréttum um veiðar á úthafsrækju voru eingöngu sýndar myndar af rækjuveiðum inni á fjörðum, líklega Vestfjörðum.
Úr frétt um blaðamannafund í Norræna Húsinu mbl. is (19.07.2010): Í máli Oddnýjar Eirar Ævarsdóttur rithöfundar í upphafi fundar kom fram að ekki verður tekið við spurningum blaðamanna á fundinum. Ekki verður tekið við spurningum, — einkennilegt orðalag. Skýrara hefði verið að segja að blaðamenn mættu ekki spyrja spurninga á fundinum. Í fréttum Stöðvar tvö var sagt að fullt hefði verið út úr dyrum á fundinum í Norræna húsinu. Myndirnar með fréttinni báru það nú reyndar ekki með sér. Reyndar er það óvenjulegt, að ekki sé meira sagt, að fundarboðandi lesi spurningalista yfir blaðamönnum, en blaðamönnum sé bannað að spyrja. Þetta er örugglega einn sérkennilegasti blaðamannafundur í fjölmiðlasögu landsins.
Íslendingur,sem lengi hefur búið vestan hafs, lætur sér annt um móðurmálið. Hann sendi Molum eftirfarandi:
„Ég rakst á þetta í Silfri Egils á Eyjunni: „Tyrkir og Grikkir hafa lengi barist á banaspjótum“
Algengt er að misnota svona þetta orðatiltæki – oftar er talað um að „berast á banaspjót“, eða jafnvel „berast á banaspjótum“. Hér er smáfróðleikur um upprunann, sem er ekki alveg augljós, en hefur þó ekkert að gera með að „berjast“: http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=23884 „
Skildu eftir svar