Á vef Ríkisútvarpsins (22.07.2010) stóð: Á stjórnarheimilinu láta menn reka í reiðanum. Þetta orðalag kannast Molaskrifari ekki við. Sá sem svona tekur til orða skilur sennilega ekki orðið reiði en það er siglutré með seglabúnaði ( Íslensk orðabók). Á íslensku er talað um að láta reka á reiðanum, að láta fara sem vill. Vonandi kristallast hér ekki reiðareksstefna Ríkisútvarpsins hvað málfar varðar. Vonandi nær umburðalyndi málfarsráðunautar ekki yfir svona fráleit mistök, eða hvað ?
Í fréttum fjölmiðla (21.07.2010) neituðu talsmenn slökkviliðsmanna,sem boðað hafa verkfall á föstudag, ítrekað að segja hlustendum hverjar kröfur slökkviliðsmanna væru. Þannig kjarabarátta er ekki trúverðug. Ef launakröfurnar eru sanngjarnar hversvegna fáum við ekki að vita hverjar þær eru?
Eftirfarandi athugasemd barst frá Molalesanda: „ Ummæli dagskrárkonu RÍKISútvarpsins í gærmorgun eftir viðtal við Einar Sv. veðurfræðing: „Veðurblíðan mun haldast til fimmtudags en þá mun ÞAÐ snúast við“ . Ég skildi þetta hins vegar svo að á miðvikudag myndi vindur snúast í vestlægar áttir og þá hlýnaði á norður og austurlandi. Er RUV bara svæðisútvarp fyrir höfuðborgarsvæðið eða sér dagskrárgerðarfólk útvarpsins bara út fyrir gluggann í Efstaleiti? Hrynjandin hefur stundum pirrað mig í málfari auglýsingalesara á Bylgjunni og einnig í svæðisútvarpi Akureyrar (RUV), við erum kannski að eignast nýja mállýsku eftir að hinar gömlu hafa þynnst út.“
Úr dv.is (20.07.2010): Lögreglumenn á eftirlitsferð um Eyrarbakka í gærkvöldi fannst hann finna kannabislykt og að hana mætti rekja að tilteknu húsi. Það var og. Lögreglumenn fannst hann finna !
Í kvöldfréttatíma Ríkissjónvarpsins (19.07.2010) var okkur sagt að Landeyjahöfn yrði vígð daginn eftir. Rétt reyndist það, að höfnin var vígð, þótt þessi væri aðeins stuttlega getið í framhjáhlaupi að prestur hefðu komið við sögu. Öðru vísi verða mannvirki nefnilega ekki vígð. Það var vel til fundið að blessa þetta mannvirki og biðja þeim blessunar ,sem um höfnina eiga eftir að fara. Það var hinsvegar ranglega sagt sumstaðar ,að Kristján Möller samgönguráðherra hefði vígt höfnina. Hann vígir ekki eitt né neitt, enda ekki vígður maður.
Alltaf öðru hverju heyrist í fréttum talað um að taka þátt á íþróttamóti. (Stöð tvö 20.07.2010). Hvimleitt. Við tölum um að taka þátt í einhverju, ekki á einhverju. Í Ríkissjónvarpinu var sagt um íþróttakonu, að hún kæmi frá Kópavogi. Betur hefði farið á því að segja að hún væri úr Kópavogi. Nema að hún hafi verið að koma úr Kópavogi.
Skildu eftir svar