«

»

Molar um málfar og miðla 360

Í fréttum Stöðvar tvö  var sagt frá  einkar heimskulegum athugasemdum á  vef Sky-sjónvarpsins  við  frétt af nýfundinni ofurbjartri stjörnu.  Um þann sem  gerði athugasemdina  sagði reyndasti  frétthaukur Stöðvar tvö: Ekki kannski skarpasti hnífurinn í skúffunni. Ekki er hægt að hrósa þessu orðalagi. Það er of enskulegt til að geta kallast  vandað íslenskt mál.  Það var hinsvegar  hnyttið  ( Molaskrifara fannst það að minnsta kosti) þegar þessi  sami  fréttahaukur  sagði fréttir að því að Shackleton landkönnuður og  menn hans  hefðu verið orðnir  vistalitlir á leið að  suðurpólnum, en áttu þó  fjóra kassa að  viskíi ! Var á honum að heyra að  menn með slíkar birgðir  væru hreint ekki vistalitlir.  Svolítið spaug er gott með með öðru, – meira að segja í fréttum.

   Í fréttum Ríkissjónvarpsins sagði  fréttaþulur (23.07.2010): … og furðar sig á hve illa hefur gengið fyrir  fyrirtækið að kaupa kvóta hér á landi.  Að tala um að  eitthvað gangi illa  fyrir einhvern er  barnamál.  Rétt hefði verið að segja: … og furðar sig á því hve illa fyrirtækinu hefur gengið að kaupa (eða fá keyptan) kvóta  hér á landi.

 Umsjónarmaður  morgunútvarps Ríkisrásar tvö  sletti á okkur  ensku í viðtali um  eplatré (22.07.2010). Hann talaði um sexual partners.  Slæmt er ,að  stjórnendur í Efstaleiti skuli ekki hafa metnað til  málvöndunar. Stundum sletta þeir mestri ensku sem minnst kunna fyrir  sér  í því ágæta tungumáli.

 Í tíu fréttum Ríkissjónvarpsins (21.07.2010) las fréttaþulur: Bróðurpartur úthafsrækjukvóta þessa fiskveiðiárs var úthlutað til fimm útgerða…  Hér  hefði  þulur átt að segja:  Bróðurparti  úthafsrækjukvóta  þessa fiskveiðiárs var úthlutað til fimm útgerðarfyrirtækja … Einhverju er úthlutað, Eitthvað er ekki úthlutað. En  í ljósi umburðarlyndis  reiðareksstefnunnar í Efstaleiti  þykir þetta líklega gott og  gilt. Molaskrifari er á öðru máli.

Sjónvarpsauglýsingar  Símans  í enskættuðu auglýsingaherferðinni Ring fara  hríðversnandi. Það nýjasta er að sýna  pilt  sem klæðist skátabúningi og er látinn koma fram  eins og hann sé þroskaheftur eða greindarskertur. Hvaða  tilgangi á  svona  rugl að  þjóna?  Síminn misbýður okkur áhorfendum,  ekki síst þeim sem hafa starfað innan skátahreyfingarinnar. Af hverju  gerir Síminn lítið úr Skátahreyfingunni?

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (21.07.2010) var sagt: … skipaði bráðabirgðastjórn yfir félaginu. Ekki  finnst Molaskrifara þetta eðlilegt orðalag. Betra hefði  verið að tala um að  skipa félaginu bráðabirgðastjórn. Þessi  ambaga hefur svo sem heyrst áður í Ríkisútvarpinu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>