«

»

Molar um málfar og miðla 361

 Enn eitt  dæmi þess að fréttaskrifarar nota orðatiltæki,sem þeir kunna  ekki með að fara , má  finna á  mbl.is (24.07.2010): Þegar þyrlan var að nálgast vettvang bárust hins vegar fregnir af því að maðurinn væri fundinn. Hann var á heilu og höldnu. Hér er átt við að maðurinn hafi verið heill á húfi.  Það er ekkert til sem heitir að vera á heilu og höldnu.  Menn geta hinsvegar náð heilu og og höldnu  í áfangastað, óskaddaðir, í góðu ásigkomulagi. Og enn kemur  vettvangurinn við  sögu. Það er ekkert að því  ágæta orði , en  nú er farið  að ofnota það og  misnota. Hér hefði til dæmis  mátt segja: Þegar þyrlan nálgaðist leitarsvæðið.  

   Glöggur Molalesandi sendi eftirfarandi: „ Á DV-vefnum í dag  (23.07.2010) er svohljóðandi fyrirsögn: Fallnir þingmenn boða endurkomu. Þarna finnst mér alrangt komist að orði, fyrirsögnin verður gildishlaðin. Satt er að þessir þingmenn hafa ekki setið á þingi undanfarna mánuði, en þeir féllu hvorki í kosningum né í bindindi eða af öðrum orsökum heldur hættu þingsetu sjálfviljugir og flestir tímabundið, sem kunnugt er.
Hæpin málnotkun þetta.“ Hárrétt athugasemd. Kærar þakkir.
Í fyrirsögn á dv.is segir (23.07.2010):  Jóhannes  Karl með neglu að hætti hússins. Negla er eins og flestir vita tappi í neglugat á báti.  Í fréttinni segir einnig :   Jóhannesi hefur á ferlinum ekki leiðst það neitt sérstaklega að negla í tuðruna... Ekki fellir  Molaskrifari  sig   þessa  notkun á nafnorðinu negla og ekki heldur  sögninni að negla. Oft er  að vísu  talað uim  að  leikmaður hafi neglt í  vinstra hornið.  Skorað með  föstu skoti í vinstra horn marksins.  Nær  væri að tala um neglingu en  neglu. Orðið neglingu er að  finna í Íslenskri orðabók (óformlegt), fast  skot.  Líklega skortir  Molaskrifara umburðarlyndi í þessu  tilviki, að einhverra mati. Í fréttinni er talað um bylmingsskot. Það  finnst Molaskrifara ágætt,  sbr. bylmingshögg, öflugt eða fast högg.

 Það er mikill misskilningur hjá stjórnendum  fréttastofu ríkisins ,að allir geti  lesið fréttir. Sá sem las fréttir klukkan  17 00  sl. föstudag (23.07.2010) er ekki vel til þess verks fallinn. Honum lætur annað betur.

  Í kvöldfréttum  Ríkisútvarpsins (23.07.2010) var  ítrekað sagt á  helginni , þegar verið var að gera grein fyrir atburðum af ýmsu tagi um  komandi  helgi. Af  hverju  á helginni en ekki um helgina  eins og málvenja er að segja?

 Í íþróttafréttum Stöðvar tvö (23.07.2010) var  talað um að  forystumaður hefði hlekkst  á. Þetta er rangt. Maður hlekkist ekki á. Manni hlekkist á. Því hefði átt að segja að  forystumanni hefði hlekkst á.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>