Hér kemur Gomis. Hann er að stökkva átta metra. Úr íþróttalýsingu í Ríkissjónvarpi (25.07.2010). Betra hefði verið: Hann stekkur átta metra , eða: Hann stökk átta metra.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (25.07.2010) var sagt: Þá voru skemmdir unnar á rúðu. Nú er þetta auðvitað ekki rangt. En var ekki rúðan brotin? Hefði ekki verið skýrara að taka þannig til orða?
Fyrir helgina var hér fjallað um enskættaðar og ósmekklegar auglýsingar Símans. Molaskrifari reyndi að hafa samband við þann starfsmann Símans er bæri ábyrgð á þessu. Það gekk illa. Fékk tölvubréf frá starfsmanni Símans þar sem spurt var: Hvað var málið?
Tölvubréfinu svaraði Molaskrifari svona: Sæll Einar,
Málið er, að mér er misboðið þegar Síminn notar enska orðið ring í auglýsingaherferð,sem beint er að íslenskum neytendum. Ring er ekki íslenska. Af hverju þurfið þið að sletta á okkur ensku ?
Mér er svo enn meira misboðið, þegar þið sýnið ungan pilt í skátabúningi, sem látinn er koma fram eins og fáviti. Hvað hefur skátahreyfingin gert Símanum ?
Ég er búinn að vera viðskipavinur Símans í næstum 50 ár og mundi fara annað með mín viðskipti ,ef þess væri kostur , en í veröld íslenskrar fákeppni og samráðs samkeppnisaðila er ekki um margt að velja.
Eiður Guðnason
Es Á það að hvetja fólk til viðskipta við Símann að sjá leikara velta sér upp úr drullu og maka ís í andlit hvers annars ? – Þú undirritar tölvubréfið Markaðs-Sökker. Er þetta nýtt stöðuheiti hjá Símanum ? Hvað er sökker? Markaðs sökker er ljót sletta og eins og þú skrifar það er það ekki í samræmi við íslenskar réttritunarreglur. ESG
Hér hefði mátt bæta við spurningu um auglýsingagildi þess að sjá menn sprauta yfir sig bensíni eða díselolíu og taka síðan upp eldspýtur. Er Síminn algjörlega greindarsneytt fyrirtæki ?
Svar hefur ekki borist frá Símanum.
Skildu eftir svar