«

»

Molar um málfar og miðla 363

Ekki getur sá talist skrifandi ,sem svo skrifar á pressan.is (27.07.2010): Stjórnarandstöðuþingmaður segist ekki hugnast sú stefnubreyting sem orðið hefur hjá ríkisstjórninni …..  en  er þó sjálfum sér samkvæmur í vitleysunni:  Pétur H. Blöndal, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, hugnast ekki sú stefnubreyting sem á sér stað hjá ríkisstjórninni í auðlindarmálum  (svo !) Hér ætti að standa: Stjórnarandstöðuþingmaður segir sér ekki hugnast…. og:  Pétri H. Blöndal , alþingismanni Sjálfstæðisflokksins hugnast ekki……  Þetta er ekkert óskaplega flókið.

Í Morgunblaðinu (27.07.2010) segir svo um göngutjöld ,að þau vegi að staðaldri 2,5 til 3,5 kg. Þetta orðalag kemur Molaskrifara ekki kunnuglega fyrir sjónir en getur þó  verið gott og  gilt.  Að staðaldri þýðir í málvitund Molaskrifara , alltaf , ævinlega. Einhvern veginn ekki rétt orð á réttum  stað, –  eða hvað ?

Molavinur sendi eftirfarandi: „Dúfnasaur rigndi yfir Kings of Leon“ stendur á vef DV. Er ekki dúfnasaur helst til hátíðlegt orð yfir fugladrit? — Það tekur  Molaskrifari heilshugar undir. Þetta eru pempíuskrif. Næst verður líklega  talað um kúasaur og hrossasaur, músasaur  og  hundasaur !

Úr dv.is (25.07.2010): Alls 8.000 manna herlið frá báðum löndunum tekur þátt í æfingunni, og þar er nýst við 20 skip og 200 flugvélar. Orðalagið ….. og  þar er nýst við er  út úr kú. Þarna hefði til  dæmis mátt segja.. og þar koma  við sögu 20 skip og 200 flugvélar.  Betra hefði verið:  Átta þúsund manna herlið, 20 skip og  200 flugvélar  frá báðum löndum taka þátt í æfingunni.

Þrjú voru í bílnum, eldri hjón og sonur þeirra. (mbl.is 25.07.2010). Hér hefði Molaskrifari sagt: Þrennt var í bílnum, eldri hjón og sonur þeirra. 

Spánverjinn Alberto Contador sigraði Tour de France í þriðja sinn á fjórum árum. Svo segir  dv. is (25.07.2010).  Kappinn sigraði ekki Tour de France. Hann bar sigur úr bítum í hjólreiðakeppninni Tour de France.

Það eru  einstaklega ófagleg og ótrúverðug vinnubrögð Fréttastofu Stöðvar tvö að kalla til  fyrrum formann  Sjálfstæðiskvennafélagsins Hvatar og  varaþingmann  Sjálfstæðisflokksins til að fjalla um  stöðu ríkisstjórnarinnar undir því yfirskini að konan sé stjórnmálafræðingur. Á Stöð tvö kunna  menn ekki til verka í þessum efnum.   Það er líka ófaglegt hjá  Fréttastofu ríkisins hvernig  sumir  fréttamenn sífellt gera sjálfa sig að aðalatriði fremur en  fréttina  sjálfa. Þetta kom fram í fréttatíma kvöldsins (25.07.2010).

Skortur á sandsílum , segir í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins  (26.07.2010). Molaskrifari er á því að í samræmi við málvenju hefði átt að segja: Skortur á  sandsíli, – þótt það hljómi  ef til vill ekki alveg rökrétt, en málið er  ekki  alltaf hneppt í viðjar  rökhugsunar. Við segjum  til dæmis, að mikið veiðist af  loðnu, ekki loðnum. Þannig er líka tekið til orða, þegar vel aflast  af þorski, ekki þorskum og  sagt er  að sandsíli sé komið á miðin. Þá er og talað um að laxinn sé  byrjaður að ganga, – ekki laxarnir.

Þeim bregst aldeilis ekki bogalistin sem raða saman dagskránni  hjá Ríkissjónvarpinu: Klukkan  20:55 (27.07.2010) sænskur þáttur um störf ljósmæðra, – sá fyrsti af átta , takk fyrir. Klukkan 21:20 sænskur þáttur með lækni í aðalhlutverki , um heilsusamlegt líferni.  Sá fyrsti af átta. Takk fyrir. Snilld.  Verða sjö næstu þriðjudagskvöld svona? Hvaðan koma þeir sem setja saman svona dagskrá ?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>