Í seinni fréttum Ríkissjónvarpsins (27.07.2010) var sagt: .. vandi (landhelgis)gæslunnar er skortur á fjárveitingum. Á mannamáli hefði átt að segja, að vandi gæslunnar væri fjárskortur, – gæslan væri í fjársvelti.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (27.07.2010) var sagt um íþróttakonu: … reið á vaðið hjá íslenska hópnum. Að ríða á vaðið er að vera fyrstur, eða hafa forgöngu um eitthvað. Það er ekki hægt að nota þetta orðatiltæki eins og gert var í Ríkisútvarpinu. Menn ríða ekki á vaðið hjá einhverjum. Ef til vill veit sá fréttamaður,sem hér átti í hlut ,ekki hvað vað er. En vað er staður þar sem hægt er að vaða, aka eða ríða yfir vatnsfall.
Þáttur Ásgerðar Jónu Flosadóttur í Útvarpi sögu er líklega versta dæmi um auglýsingahórerí sem finnanlegt er í íslenskri fjölmiðlaflóru. Þátturinn heitir Á ferð og flugi með Iceland Express. Molaskrifari hlýddi á þáttinn aðfaranótt þriðjudags (27.07.2010). Í þættinum hafa öll mörk milli auglýsinga og dagskrárefnis verið jöfnuð svo rækilega við jörðu að ekki stendur steinn yfir steini. Þrennt var auglýst:
Í fyrsta lagi kúkakukl Jónínu Benediktsdóttur á Miðnesheiði. Þeir sem gagnrýna það eru kallaðir rógberar. Umsjónarmaður sagði, að íslenskar konur á miðjum aldri drykkju rauðvín og hvítvín daginn út og daginn inn og þyrftu því að fara í afeitrun eða svokallað detox. Nokkru seinna var fluttur þáttur í þessari sömu útvarpsstöð með Stelpunum á stöðinni, þar sem talað var um ágæti kampavínsdrykkju og jarðarberjaáts að lokinni sundlaugarferð og spáð í hvernig smygla mætti brennivínspela inn í Laugardalslaugina.
Í öðru lagi voru auglýstar golferðir ferðaskrifstofunnar Iceland Express svo purkunarlaust að slíks eru líklega fá dæmi í dagskrárgerð.
Í þriðja lagi voru auglýstir Kínalífselexírar og snákaolíur ,sem karlar eiga að nota ( Þegar „lillinn“ er í Latabæ eða í verkfalli ,eins og Ásgerður Jóna orðaði það). Þá var eitthvað nefnt til sögu sem á að gefa konum betri preformance ( þetta er ekki ritvilla) eins og sölumaðurinn orðaði það ! Og svo loks töfralyf sem á gera fólki unnt að léttast um 13-14 kíló á 6-8 vikum. Hér er linnulaust logið að fólki. Landlæknisembættið á auðvitað að stöðva þessa skipulögðu pretti.
Í lokin sagði svo Ásgerður Jóna Flosadóttir umsjónarmaður alls þessa við hlustendur: Þátturinn Á ferð og flugi með Iceland Express er lokið að sinni. Það var eftir öðru. Þátturinn er lokið !
Fréttatími Stöðvar tvö (26.07.2010) var óvenjulega amböguríkur. Þar var talað um lán sem voru fallin á gjalddaga. Málvenja er að segja að greiðsla eða lán, sé fallið í gjalddaga. Skilvísir greiða hinsvegar lán á réttum gjalddaga. Þá var sagt að húsgrunnur hefði verið rifinn og tyrft yfir í Kópavogi. Molaskrifari á ákaflega erfitt með að sjá menn fyrir sér við að rífa húsgrunn!. Í íþróttafréttum var sagt : … og eru liðin í fullum undirbúningi. Þetta orðalag kannast Molaskrifari ekki við, kannski þekkja lesendur það.
Ekki verður sagt, að stafað hafi skjannabirtu frá Kastljósi Ríkissjónvarpsins, þegar kveikt var á því (26.07.2010) að loknu sumarleyfi. Fjallað var um þrennt. Tvennt var úr heimi íþróttanna og líklega heldur óspennandi fyrir þorra fólks. Vonandi hressist Eyjólfur. Kannski verður Kastljósið bjartara þegar skuggarnir fara að lengjast. Molaskrifari átti erfitt með að festa hugann við samræður þriggja pólitíkusa þar sem ekkert nýtt kom fram.
Í fréttatíma Ríkissjónvarpsins (26.07.2010) var sagt að tiltekinn fréttamaður væri við stjórnarráðið. Myndin bar svo með sér að fréttamaðurinn stóð í Bankastrætinu, við þann stað, sem einu sinni var kallaður Bankastræti 0 (þar var í áratugi karlaklósett og smokkasala, kannski ekki síst fyrir þá sem þorðu ekki að standa fyrir framan fallegar stelpur í apótekum og biðja um smokka) og í baksýn var stjórnarráðshúsið. Það var út í hött að segja að fréttamaðurinn væri við stjórnarráðið. Enda er orðið stjórnarráðið með ákveðnum greini samheiti yfir skrifstofur allra ráðuneyta. Í fréttatíma Ríkissjónvarps talaði Ingólfur Bjarni réttilega um Stjórnarráðshúsið, en Einar fréttamaður sagðist vera við stjórnarráðið. Hann hefur ekki náð áttum.
Skildu eftir svar