«

»

Molar um málfar og miðla 365

Láta sér ekki muna um, sagði fréttamaður Ríkissjónvarps (30.07.2010) Molaskrifari á því að venjast að  talað sé um að láta sig ekki muna um  að gera eitthvað.

 Af hverju í ósköpunum skrifa menn svona?  Þremur slökkviliðsbílum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu fóru áleiðis upp í Skálafell rétt eftir klukkan 13 eftir að tilkynnt var um svartan reyk á svæðinu.(dv.is 27.07.2010)

 Í sjö fréttum Ríkisútvarpsins  (28.07.2010) las fréttaþulur óhikað: .. samþykkti í gær  þrjátíu og þrjá milljarða   fjárveitingu til stríðsins í Afghanistan…  Þrjátíu og þriggja milljarða  hefði þetta átt að vera, en umburðarlyndið fer  vaxandi í Efstaleitinu.

 Í  skúraræksnunum  frá stríðsárunum   við Reykjavíkurflugvöll, sem kölluð eru afgreiðsla   eða  flugstöð, er að  finna upplýsingaspjald  á  íslensku og ensku um tollfrjálsan varning. Í enska  textanum á þessu spjaldi sem merkt er  Flugfélagi Íslands, eru einar  fjórar  eða fimm prentvillur/málvillur. Ekki eru húsakynnin traustvekjandi og þegar Molaskrifari  les   enskan  texta sem er morandi í villum hrapar  ábyrgðarmaður textans í áliti. Skúrarnir og skiltið  eru  okkur til skammar.

 Stórbrotið fagn Stjörnumanna ,segir dv. is í  fyrirsögn  (27.07.2010). Með orðskrípinu fagn  virðist sá sem skrifar eiga við orðið fagnaður eða fögnuður sem þýðir ánægja eða  gleði. Í fréttinni segir:

Það sem var þó fallegra en markið sjálft var fagn Stjörnumanna sem er líklega það besta sem sést hefur hér á landi. Halldór Orri renndi fyrir laxi í fagninu og fékk á öngulinn engan annan en Jóhann Laxdal,.. rennndi fyrir laxi í fagninu ! Hvað eru menn að hugsa á  dv.is. Þeir eru ekki að hugsa.  Er dv. is að  reyna að búa  til einhverja nýja tegund af barnamáli handa lesendum sínum ?  Við erum ekki börn.   íþróttafréttamaður Stöðvar tvö át svo þetta rugl  fimm sinnum  upp eftir  dv.is í fréttatíma stöðvarinnar (27.07.2010)

  Reykholt í Borgarfirði er að verðleikum orðið eitt mesta menningarsetur landsins.   Molaskrifari hitti þar í dag (29.07.2010) Arne Holm og  Håkan Randall gamla vini frá Bergen sem  eiga ómetanlegan þátt í endurreisn Reykholts.  Það voru fagnaðarfundir.–  Mæli hinsvegar ekki sérstaklega með veginum um Kaldadal til að komast í  Grímsnesið !

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>