«

»

Molar um málfar og miðla 366

 Væntanleg bók Sölva sjónvarpsmanns um Jónínu Benediktsdóttur fékk milljón króna  ókeypis auglýsingu í Kastljósi (29.07.2010). Það merkilega við viðtalið við Sölva var, að þar kom ekkert nýtt fram. Nákvæmlega ekkert. Gott er að geta  gert vinum sínum greiða og auglýst verk þeirra, köruð jafnt sem  hálfköruð. Ísland er smátt í dag.

Úr Mogga (30.07.2010): Óhagstæð sjávarskilyrði urðu til þess að ekki var nóg dýpi í höfninni og sat Herjólfur fastur um tíma.  Þetta hefði fréttaskrifari að skaðlausu mátt skýra aðeins betur.  Hvað þýðir í þessu samhengi: Óhagstæð sjávarskilyrði. Líklega var lágsjávað, fjara.

  Við byrjum strax á næsta laugardag, sagði annar umsjónarmanna  poppþáttarins sem Ríkissjónvarpið  býður okkur svo rausnarlega upp á á laugardagskvöldum. Molaskrifara hefði fundist betra, ef  maðurinn hefði sagt:  Við byrjum strax  næsta laugardag. Á-inu var ofaukið.

 Í Hallormsstaðaskógi  gætir margra grasa, sagði fréttamaður  Ríkissjónvarps (29.07.2010). Vitaskuld er þetta ekki rangt. En flestir  eru vanari því, að  sagt sé ,að   einhversstaðar kenni margra grasa, fremur en gæti margra grasa.

 Þetta hefur  ekki  náð að skjóta fótfestu hér,  sagði  þáttagerðarmaður á Bylgjunni ( kl. 18:20 28.07.2010). Þarna blönduðust  saman tvö orðatiltæki, að fá   fótfestu og að skjóta  rótum. Útkoman varð bull.

 Í tíufréttum Ríkisútvarpsins og á heimasíðunni (28.07.2010)  segir:  Souza neitaði sök en saksóknari í heimahéraði hans segir engan vafa liggja á að hann hafi sjálfur skipulagt fjöldamorð…  Hér er talað um að enginn vafi liggi á að hann hafi…. Molaskrifari er vanur því að talað sé að enginn vafi  leiki á…  Hefur  aldrei heyrt talað um að vafi liggi á einhverju.

  Þeir eru snjallir  á Bylgjunni. Rétt fyrir útsendingu frétta Stöðvar tvö  (29.07.2010) voru tveir  þáttagerðarmenn að  rifja upp merkisatburði sem gerst hefðu 29. júlí.  Níu ára stríðið var háð þennan dag, sagði annar þeirra og  svo ræddu þeir heimspekilega um níu ára stríðið !

  Efstaleitismenn grétu sáran í Morgunblaðinu í  (29.07.2010) og segja að  nú sé svo hart í ári, að fækka þurfi dagskrárliðum. Þetta er sagt eftir að haugarnir af endursýndu efni hafa verið sendir inn á heimilin í landinu í allt heila sumar. Kannski væri staðan hjá þessari  þjóðarstofnun okkar eilítið skárri, ef ekki hefði í sumar verið vikum saman eytt milljónum á milljónir ofan í innhaldslaust  fótboltabull, þar sem þrír  eða  fjórir kallar fimbulfömbuðu endalaust um fótbolta á undan og eftir hverjum einasta leik í  heimsmeistarakeppninni. Hvað skyldi þetta fjas eftir ? Ekkert. Látum vera að sýna talsvert af leikjum  úr keppninni. Sjálfsagt mál.  Dómgreindarleysi íþrótta- og auglýsingadeilda varð stofnuninni dýrt. Stjórnendur Ríkisútvarpsins kunna ekki að forgangsraða og eyða dagskrárfé í vitleysu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>