Visir.is sagði frá því er hvítabjörn var drepinn á Svalbarða (30.07.2010): Hvítabirnir eru friðaðir á Svalbarða. Sýslumaðurinn þar sagði hinsvegar augljóst að dýrið hafi verið drepið í sjálfsvörn og eftirmáli því enginn. Eftirmáli þýðir niðurlagsorð , texti aftan við meginmál. Eftirmál eru hinsvegar eftirköst, afleiðing, rekistefna vegna tiltekins atferlis. Hér hefði því átt að standa: Eftirmál urðu því engin. Það er ótrúlega algengt að ruglað sé saman eftirmála og eftirmálum. Í stað hafi hefði átt að segja hefði.
Fínn þáttur Lönu Kolbrúnar Eddudóttur um Bítlalög með íslenskum textum, eða Bítlalög á íslensku eins og hún orðaði það. Ríkisútvarpið, rás eitt (30.07.2010).
Ég er á móti ESB af því ég vil ekki Breta inn í landhelgina aftur, sagði Guðni vinur minn Ágústsson í Kastljósi (30.07.2010). Það er ekki á góðu von, þegar umræðan um ESB er á þessum nótum. Guðni veit vel ,að Bretar eigan engan úthafsflota lengur, – þeir eiga ekki skip til að senda til Íslands, þótt slíkt væri í boði. Það verður auðvitað aldrei í boði. Þetta er dapurlegt dæmi um það hvernig andstæðingar ESB aðildar tala og hræða fólk með hálfgerðum hótunum.
Hvenær skyldi Ríkissjónvarpið hætta að bjóða áhorfendum upp á vonlausar amerískar dellumyndir á föstudagskvöldum ?
Það er mikill misskilningur hjá stjórnendum Fréttastofu Ríkisútvarpsins, að halda að allir fréttamenn geti verið fréttaþulir. Að þessu hefur verið vikið hér áður. Þeir sem lesa fréttir verða að vera áheyrilegir. Á það skorti nokkuð í morgunfréttum (02.08.2010).
Dagskrárstjóri Ríkisútvarpsins segir í viðtali við Morgunblaðiðað þar séu (30.07.2010) ýmsar leiðir til niðurskurðar á teikniborðinu. Er þá verið að teikna niðurskurðarleiðir ?
Á heimasíðu Ríkisútvarpsins er listi yfir starfsmenn stofnunarinnar. Þar telst Molaskrifara til að séu hátt í 340 nöfn. Væri ekki hægt að komast af með aðeins færra fólk? Þetta er eiginlega með ólíkindum.
Hér var á dögunum vikið að skrumþætti Jónu Ásgerðar Flosadóttur, Á Ferð og flugi með Iceland Express, í Útvarpi Sögu. Svo merkilega vill til, að Matthías Imsland , forstjóri ferðaskrifstofunnar Iceland Express, (Iceland Express er ekki flugfélag) er stjórnarformaður Fjölskylduhjálpar Íslands, einkafyrirtækis Jónu Ásgerðar Flosadóttur. Svona er Ísland í dag.
Skildu eftir svar