«

»

Molar um málfar og miðla 368

Af hverju ertu með  verðlaunapening,   spurði sjónvarpsfréttamaður sjö ára stúlku  Stúlkan svaraði að bragði: Af því að ég vann !

Hraðakstrar í Húnaþingi, sagði í fyrirsögn á  mbl.is (03.08.2010). Orðið akstur er ekki til í fleirtölu. Svo einfalt er nú það.

  Aðstoðarmaður  menntamálaráðherra  varð frægur að endemum á  dögunum fyrir orðbragð í  tölvupósti. Í tíu fréttum  Ríkissjónvarps (03.08.2010) var haft  orðrétt  eftir  aðstoðarmanni félagsmálaráðherra:.. svo sjoppan yrði opin , þegar fólki mætti… Aðstoðarmaðurinn  kallaði  skrifstofu umboðsmanns skuldara  sjoppu !  Líklega ættu ráðherrar að vanda  sig meira, þegar þeir velja sér  aðstoðarmenn.

Gæslan fann villta konu, sagði í fyrirsögn á mbl.is (01.08.2010). Sá sem  benti  Molaskrifara á þessa fyrirsögn fullyrðir að konan hafi verið frumbyggi ! það var greinilegt að  viðvaningar höfðu  tekið völdin á mbl. is um helgina. Eftirfarandi  dæmi bera vott um það: Fallið var um einn meter. Drengurinn lenti illa og missti við það andann um stund. ….Stór rúta missti smurolíuna niður á bílastæði og í götuna við Uppsalaveg á Húsavík í dag.

Eigið þið von á mikið af  fólki í dag ?  Þannig  spurði  fréttamaður Stöðvar tvö  ( 31.07.2010)   Hann  átti við hvort von væri á mörgu fólki  til Eyja í dag. Í sama fréttatíma var sagt  að þoka hefði verið að valda truflunum á  flugi. Betra hefði verið að segja  að þoka hefði valdið truflunum  á flugi.  Frakkinn sigraði hundrað metrana, sagði íþróttafréttamaður  Stöðvar tvö (31.07.2010)   og  sagði svo að  tiltekinn garpur hefði stolið  sigrinum og annar nappað  sigrinum.  Vonandi hefur lögreglan haft hendur í hári þjófanna.Sami fréttamaður sagði daginn eftir  að  ágætur íþróttamaður hefði  sigrað kúluvarpið.  Óboðlegt málfar.

  Það  ar  ágætlega að orði komist í  fréttum Ríkissjónvarpsins , þegar sagt var (31.07.2010): Talið er að  ein milljón manna hafi orðið fyrir skakkaföllum vegna flóðanna.

 Ríkisútvarpið hneykslaðist á því (01.08.2010), að bjór hefði verið auglýstur á ljósastaurum í Borgarnesi. Ríkissjónvarpið  sýnir þjóðinni daglega bjórauglýsingar og  opinberar þannig virðingarleysi  þessarar þjóðarstofnunar fyrir   landslögum og  reglum. Ekki hefur verið fjallað um bjórauglýsingar Ríkisútvarpsins í Ríkisútvarpinu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>