Bjarni Sigtryggsson ,Molavinur, sendi Molum eftirfarandi réttmæta ábendingu: „Á unglingsárum mínum norðanlands heyrði ég oft talað um *lystiskip* þótt þau væru sjaldséð við Ísland í þá daga. Mér finnst þetta heiti í senn þjálla, fallegra og réttara orð en *skemmtiferðaskip* sem nú er notað nær eingöngu yfir þau siglandi hótel, sem sækja heim íslenzkar hafnir allt sumarið. Eflaust er þó einhver skemmtun um borð fyrir farþega, sem flestir hafa lokið ævistarfi sínu og ferðast um heiminn í lystisemdum.“ Sammála þér, Bjarni. Þörf ábending.
Sigríður Guðlaugsdóttir, nýr fréttaþulur Stöðvar tvö, kemst prýðilega frá fréttalestri. Hefur viðfelldna rödd og útgeislun. Virðist líka blessunarlega laus við þann fatafígúrugang,sem sumar konur hafa tileinkað sér í sjónvarpi. Meginregla í sjónvarpi er að klæðaburður eða hárgreiðsla eigi aldrei að beina athygli frá efninu. RÍkissjónvarpið fellur því miður oft í þessa gömlu gryfju. Vel valið hjá stjórnendum Stöðvar tvö.
mbl.is (02.08.2010):Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, telur að í nóvember í síðasta lagi muni liggja fyrir hversu mikið fé bankarnir þurfa á að halda. Seinni hluti þessarar setningar ætti að vera svona: … hversu miklu fé bankarnir þurfi á að halda.
Og svo segir Moggi: Mikil umferð framhjá Borgarnesi (02.08.2010). Þjóðvegur 1 liggur um Borgarnes, – ekki framhjá Borgarnesi. Sá sem þetta skrifaði á greinilega eftir að koma í Borgarnes,.
Sóttu veikan mann á rússneskan togara, sagði í fyrirsögn á visir. is ( 02.08.2010). Forsetningin á er út í hött í þessu sambandi. Nær hefði verið að segja: Sóttu veikan mann í rússneskan togara.
Gott Kastljós RÍkissjónvarps (03.08.2010). Viðtal Sigmars við fyrrverandi umboðsmanna skuldara var eiginlega leikur kattarins að músinni. Það jaðraði við að maður hefði samúð með þeim fyrrverandi. Sigmar var vel undirbúinn og eiginlega glaðbeittur, vissi greinilega að hann var einn um hituna. Gott skúbb, svo notað sé blaðamannaslangur. – Þetta orð er íslenskun á enska orðinu scoop, sá sem er fyrstur með frétt . Mér hefur alltaf fundist að þetta ætti að heita skúpp.!
Í fréttatíma Stöðvar tvö (03.08.2010) var talað um þátttöku í fjölbreyttum vinnumarkaðsúrræðum. Fjarri því að vera mannamál.
Í íþróttafréttum Ríkisútvarpsins sagði íþróttafréttamaður: …. segir árangurinn hafa gengið vonum framar. Svona er ekki hægt að taka til orða. Árangur getur verið vonum framar. Betri en búist var við. Árangur getur verið góður eða slakur. Hann getur aldrei gengið vonum framar !
Skildu eftir svar