Það vantaði svo sannarlega ekki að það væri menningarleg reisn yfir dagskrá íslenska Ríkissjónvarpsins okkar í gærkveldi (05.08.2010). Að loknum fréttum og Kastljósi var okkur boðið upp á eftirfarandi: Bræður og systur, bandarísk þáttaröð. Réttur er settur, bandarísk þáttaröð. Nýgræðingar , bandarísk þáttaröð. Svo komu tíufréttir og veður. Þá kom Framtíðarleiftur, bandarísk þáttaröð. Skylt er að geta þess að svo kom alíslenskur fótbolti á skjáinn klukkan ellefu ! Hvað voru menn svo að fjasa hér í gamla daga um slæm áhrif frá Kanasjónvarpinu í Keflavík? Molaskrifari er ekki sérstaklega andvígur bandarískum þáttaröðum, en fyrr má nú rota en dauðrota. Þetta er hreint út sagt ekki boðlegt, ágætu Efstaleitismenn.
Farið var í fegurðarátak í Reykjavík … var sagt í Ríkissjónvarpinu (04.08.2010). Molaskrifaði hefur ekki heyrt talað um fegurðarátak, en rétt orð hér væri líklega fegrunarátak. Átak til að fegra borgina.
BP tókst að innsigla borholuna á Mexíkóflóa, segir í fyrirsögn á dv.is (04.08.2010) BP innsiglaði ekki borholuna. BP tókst að loka borholunni, eða stöðva lekann úr borholunni. Hér er á ferðinni aulaþýðing á ensku sögninni to seal, sem bæði getur þýtt að innsigla og að loka eða þétta.
Í sexfréttum Ríkisútvarpsins (04.08.2010) sagði íþróttafréttamaður: Tiger Woods gæti átt í hættu að… Talað er um að eiga eitthvað á hættu, ekki í hættu.
Í fréttum Stöðvar tvö var fjallað um galla,sem komið hafa í ljós í burðarvirki glerverksins sem prýða á tónlistar- og ráðstefnuhöllina Hörpu. Þar var sagt að það þyldi ekki íslensku vindáttina. Eðlilegt hefði verið að segja að það þyldi ekki íslenska rokið.
Úr bloggfærslu á blog.is (04.08.2010): Hvers vegna verslar ekki Reykjavikurborg hagkvæmt inn fyrir ALLA nemendur í grunnskólum….? Algengt er að skrifarar þekki ekki muninn á sögnunum að kaupa og versla. Hér hefði átt að standa : Af hverju stuðlar Reykjavíkurborg ekki að hagkvæmum innkaupum fyrir alla nemendur í grunnskólum…?
Úr dv.is (04.08.2010) : Vörubílstjóri skaut átta samstarfsfélaga sína til bana og svipti sig svo lífi í gær. Klúðurslegt orð, samstarfsfélagi. Vinnufélagi ,eða starfsfélagi hefði verið betra.
Á dögunum, þegar Útvarp Saga var við sitt sama heygarðshorn að níða íslensku utanríkisþjónustuna, hringdi hlustandi til að hrósa fyrirgreiðslu íslenska sendiráðsins í Peking, Maðurinn fékk varla að ljúka máli sínu því umsjónarmaður þáttarins, Pétur Gunnlaugsson þurfti að gera auglýsingahlé. Hrós um vel unnin verk í utanríkisþjónustunni á ekki upp á pallborðið hjá ráðamönnum Útvarps Sögu.
Skildu eftir svar