«

»

Molar um málfar og miðla 371

Í fréttum Ríkisútvarpsins (04.08.2010) um áhrif eldgossins úr Eyjafjallajökli á heilsu fólks í grennd við eldfjallið var  hvað eftir annað  talað  um þá sem  voru með sögu um  astma. Ekki fellir  Molaskrifari  sig við þetta orðalag. Betra hefði verið að tala um fólk sem glímt hefði við astma eða sjúkdóma í öndunarfærum eða átt við slíka sjúkdóma að stríða.  

Lilja Bolladóttir sendi Molum eftirfarandi: „í aðalfréttatíma RÚV um daginn(27.07.2010), í sjónvarpinu kl. 19, og í fyrstu frétt þar að auki….. sem taldist ansi stór frétt um kaup Magma á HS orku osfrv….. þar birtist „vélrituð“ tafla yfir hvernig Magma ætlaði að fjármagna kaup sín og þar var „reiðufé“ skrifað REYÐUFÉ!! Maður hefði nú búist við meiru af Ríkismiðlinum sjálfum Eigum við afnotagjaldsgreiðendur ekki kröfu og heimtingu á öðru og betra??’
Hvað finnst þér?“  Jú, við eigum heimtingu á öðru og betra. Um það er ég hjartanlega sammála þér. En er þetta ekki  ein af afleiðingum þess að  reynsluboltar eru látnir fjúka og reynslulaus ungmenni ráðin í þeirra stað ?

 Umræðan um einkarétt íþróttafélaganna, ungmennafélaganna og ÖBÍ á Lottói er komin á nýtt stig eftir  fund   fulltrúa Bandalags íslenskra listamanna og dómsmálaráðaherra sem Ríkisútvarpið greindi ítarlega frá  4. ágúst. Takk fyrir það. Hef ekki séð að aðrir fjölmiðlar hafi sýnt þessu  áhuga. Nú mun forysta íþróttahreyfingarinnar væntanlega  ganga af göflunum að nýju eins og hún gerði þegar  sá sem þetta ritar skrifaði smágrein í Fréttablaðið um að endurskoða ætti Lottókerfið og  hleypa fleiri aðilum að gnægtaborðinu. Þá ætlaði allt vitlaust að verða. Forystumenn úr íþróttahreyfingunni  ruddust fram á ritvöllinn hver um annan þveran og vörðu meðal annars vínveitingar í golfskálum þar sem golf  var kynnt unglingum.

  Það á endurskoða allt þetta kerfi  og meðal þeirra sem hljóta  að koma til álita  í  endurskoðuðu eða nýju lóttókerfi eru UNICEF á Íslandi,  félög sem styðja langveik börn,Bandalag íslenskra skáta og Bandalag íslenskra listamanna.   Það þarf að lina um  einokunartök núverandi rekstraðila Lottósins á  þessari miklu peningavél og leyfa fleiri  almannasamtökum að  njóta góðs af. Það á ekki að nota Lottóið til að niðurgreiða golf eða  borga ofurlaun forystumanna ÍSÍ, KSÍ og innlendra sem erlendra atvinnumanna í íþróttum. Breytum kerfinu sem búið var  til að næturlagi í reykfylltum bakherbergjum Alþingishússins á sínum tíma.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>