Í fréttum Stöðvar tvö (06.08.2010) var sagt frá fyrirhuguðu flugi bandaríska flugfélagsins Delta milli Bandaríkjanna og Íslands. Fréttamaðurinn varvægast sagt illa upplýstur. Í fyrsta lagi sagði hann, að til flugsins yrðu notaðar breiðþotur af gerðinni Boeing 757-200, sem gætu flutt um 180 farþega. Þotur af gerðinni Boeing 757 eru ekki breiðþotur. Það eru samskonar þotur og Icelandair notar. Traustar og fínar vélar,sem hafa reynst afburða vel, en eru ekki breiðþotur. Breiðþotur eru með þrískiptar sætaraðir, tvö eða þrjú sæti við glugga, síðan gang, og þrjú eða fjögur miðjusæti og síðan gang og aftur tvö eða þrjú gluggasæti. Í öðru lagi sagði fréttamaðurinn ,að Delta Airlines væri eitt af stærstu flugfélögum heims og það allra stærsta ef miðað væri við flugflota. Þetta skildi Molaskrifari ekki. Delta Airlines hlýtur þá að vera stærsta flugfélag í heimi, – eða hvað?
Lilja Bolladóttir sendi Molum eftirfarandi: „Fyrir nokkru var Blóðbankinn líka með auglýsingarherferð, þar sem hann var að hvetja fólk til að koma og gefa blóð…. og þá sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar: „BANKANUM VANTAR BLÓГ!!!! ……Maður hikstar nú sko yfir minna….. Þágufallssýkin virðist vera orðin viðurkennd í okkar orðalagi, enginn kippir sér lengur upp við hana, en pirrar mig allavega alltaf jafn mikið. Mér finnst algjörlega óskiljanlegt, að fólk sem kann ekki eða getur ekki, talað rétt mál, sé að flytja okkur fréttir…. það getur farið óendanlega í taugarnar á mér þótt ég vinni ekki í þessum geira. Mér finnst ég eiga kröfu á vel talandi og skrifandi fréttamönnum, allavega frá Ríkisfréttastofunni. Þeim ber skylda til að halda uppi vönduðum og hlutlausum fréttaflutningi…. en eru alveg að bregðast, finnst mér.“ Kærar þakkir fyrir þetta , Lilja.
Halda þeir sem setja saman dagskrá Ríkissjónvarpsins í alvöru, að fjölskyldur setjist við skjáinn á besta tíma á föstudagskvöldum til að horfa á bandarísku dellumyndirnar sem Ríkissjónvarpið kallar fjölskyldumyndir?
Það var dapurlegt að hlusta og horfa á frétt Ríkissjónvarpsins (06.08.2010) um fullorðið fólk sem stelur grænmeti frá börnum í skólagörðum. Það var líka dapurlegt að heyra fréttamanninn,sem flutti okkur þessa frétt segja: … var búið að stela mikið af grænmeti… Fáið piltinum önnur verkefni ,Efstaleitismenn.
Í þessum sama fréttatíma Ríkissjónvarpsins var sagt frá … ólögmætum samráðshringjum… Hefði átt að vera … ólögmætum samráðshringum. En þessi athugasemd sannar líklega skort Molaskrifara á umburðarlyndi.
Í fréttum Stöðvar tvö (06.08.2010) var talað um … ólögmæti gengistryggingu lána. Hefði átt að vera… ólögmæti gengistryggingar lána. Og svo talaði þingmaðurinn, sem rætt var við um að stjórnsýslan sé brotin !
Í morgun kaus Molaskrifari með buddunni. Hann spurði um verð á innanlærisvöðva úr lambi í Nóatúni , verðið var rúmlega fjögur þúsund krónur kílóið. Hryggvöðvi úr lambi með girnilegu fitulagi ( en líklega ekki mjög hollu) , kostaði tæplega fjögur þúsund krónur Molaskrifari keypti úrvals svínahnakka fyrir minna en helming af þessu verði. Nú vill landbúnaðarráðherra framsóknarvinstrigrænna ná tökum á svínakjötsframleiðslunni svo hægt sé að hafa meira fé af okkur neytendum. Það er aldeilis ótækt, að við skulum eiga kost á ljúffengu svínakjöti á viðráðanlegu verði. Því verður að breyta.
Þegar svokölluð Hagsmunasamtök heimilanna (06.08.2010) segja á visir.is: Nokkur fjöldi fólks hefur haft samband við Hagsmunasamtök heimilanna og lýst yfir áhyggjum sínum vegna ráðningar Ástu Sigrúnar Helgadóttur í embætti umboðsmanns skuldara.– Þá er það dæmigerð dylgjufrétt. Hvað er nokkur fjöldi fólks margir einstaklingar ? Hversvegna kemur þetta fólk ekki fram undir nafni ? Af hverju er þetta ekki rökstutt? Molaskrifari þekkir ekkert til þeirrar konu sem hér um ræðir, en svokölluð Hagsmunasamtök heimilanna eru ekki sérstaklega trúverðug samtök. Enda urðu þau til sem einskonar útibú Framsóknarflokksins á sínum tíma.
Skildu eftir svar