Í þessa stuttu setningu hefur blaðamanni mbl.is tekist að troða ótrúlega mörgum málvillum : Um borð í dráttarvélinni var maður og barn sem flutt voru með þyrlunni til aðhlynningar á Borgarspítalann. Menn eru ekki um borð í dráttarvél, frekar en menn eru um borð í bíl. Þá hefði átt að segja .. voru maður og barn og þau voru flutt til aðhlynningar á Borgarspítalanum, sem líklega heitir nú Landspítalinn í Fossvogi. Ef þið ritstjórar mbl.is haldið að okkur áskrifendum megi bjóða hvað sem er, þá vaðið þið í villu og svima. — Þegar sagt var frá þessu slysi í tíufréttum Ríkisútvarpsins (07.08.2010) var talað um lögregluna á Stykkishólmi. Hvar er nú listinn sem einu sinni var til á fréttastofu Ríkisútvarpsins með forsetningum með íslenskum staðanöfnum? Sennilega hafa fréttastjórinn og málfarsráðunautur ákveðið að fleygja honum í ruslakörfuna í nafni umburðarlyndis.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (07.08.2010) var sagt frá flóðunum miklu í Pakistan. Þar sagði fréttamaður skýrt og greinilega: Einhverjir voru orðnir úrkula vona. Orðtakið er að verða úrkula vonar, missa alla von um að eitthvað gerist. Í sömu frétt sagði fréttamaður: ..forseti Pakistans hefur hafnað gagnrýni, sem hann hefur hlotið, fyrir að hafa ekki orðið eftir í Pakistan á þessum hamfaratímum. Hann er nú í opinberri heimsókn í Bretlandi. …fyrir að hafa ekki orðið eftir ! Hér hefði átt að segja að forsetinn hefði verið gagnrýndur fyrir að fara frá Pakistan eða fyrir að fara úr landi á þessum hamfaratímum. Þegar sagt er að einhver hafi orðið eftir, er um leið sagt að einhverjir aðrir hafi haldið áfram: „Jón varð eftir á Akureyri, en við héldum áfram til Húsavíkur.“ Sá sem svona skrifar hefur ákaflega litla máltilfinningu. Ríkisútvarpið okkar er svo metnaðarlaust gagnvart íslenskri tungu ,að það jaðrar við að skemmdarverk séu unnin þar oft á dag. Hvern einasta dag. Svo var ráðinn nýr málfarsráðunautur til að blessa þetta. Ja, hérna.- Auðvitað vinna margir góðir íslenskumenn hjá Ríkisútvarpinu. Bögubósarnir eru bara of margir og skyggja á hina.
Eyjubloggarinn Friðrik Friðriksson sendi Molum eftirfarandi: Sæll Eiður og takk fyrir pistlana. Vek athygli þína á meistarasmíð í orðaböggli í Mogga í dag á bls. 37 um æfi Arnolds Schwarzenegger. Það er fyrirsögnin sem er svo stórbrotin að Magnús Óskarsson hefði líklega sett hann á forsíðu hjá sér…„Arnold S braust úr auðmjúklegum grunni með,járnviljamarkmiðasetningu“ Það verður varla skrautlegra.. kv. Friðrik Friðriksson (Eyjubloggari) Rétt er það Friðrik, að verra getur þetta varla orðið.
Úr mbl. is (06.08.2010): Í þessu tilfelli virðist sem bíllinn hafi þotið upp og skíðað á vatnsaganum á veginum og farið út af þar sem hann valt og endaði á toppnum. Vægt til orða tekið , er þetta einkennilega orðað. Betra hefði verið að segja: Svo virðist sem bíllinn hafi flotið stjórnlaust á vatnshimnu á veginum, runnið útaf , oltið og endað á toppnum.
Aðstandendur hátíðarinnar voru sáttir með daginn, var sagt í fréttum Ríkissjónvarps (07.08.2010). Á íslensku segjumst við vera sátt við eitthvað , ekki með eitthvað. Sjálfsagt rennur þetta þó greiðlega í gegnum umburðarlyndissíu málfarsráðunautar Ríkisútvarpsins. Hún hefur svo víða möskva.
Skildu eftir svar