«

»

Molar um málfar og miðla 375

Seint verður sagt ,að málfar í íþróttafréttum Stöðvar  tvö sé til fyrirmyndar. Í kvöld  (09.08.2010) var þar sagt:  Birgir Leifur setti nú allt í sölurnar… Á íslensku tölum  við um að leggja  allt í sölurnar, ekki setja allt í sölurnar. Ástandið er  svo sem lítið betra í Efstaleitinu. Þar var sagt í íþróttafréttum (09.08.2010): Frammistaða hans á mótinu var það versta á ferli hans. Hér  hefði Molaskrifari  viljað heyra: Frammistaða hans á mótinu var sú versta á ferli hans.

Niðurskurðurinn í Efstaleitinu á  greinilega  ekki að bitna á íþróttadeildinnii  Ekki verður annað séð (09.08.2010)  en búið sé að ráða sérstaka  fótboltafræðinga, eða sérfræðinga eins og  þeir voru kallaðir   til að  fjalla um hina göfugu íþrótt, knattspyrnuna.

 Í þessum Molum verða ekki gerðar margar athugasemdir við málfar í  sjöfréttum Ríkissjónvarps (09.08.2010) Molaskrifari játar að honum seig  blundur á   brá  rétt  eftir að fréttatíminn byrjaði  og  svaf vært næstum til loka.

   Það var ekki sýnt mér, því miður,  sagði  forsætisráðherra í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (10.08.2010). Það var og. Hélt mér hefði misheyrst. Hlustaði aftur  á netupptökuna. Mér misheyrðist ekki. Og segi bara líka, – því miður.

  Í Kastljósi (09.08.2010) var ágæt og tímabær umfjöllum um rafbækur. Molaskrifari hefur  undanfarna  mánuði   fengið vikuritið Newsweek í Kindle  rafbókina  sína. Áskriftin kostar   um 350 krónur á mánuði, enginn pappír og ekkert vesen. Frábært.

 Aðfaranótt þriðjudags (10.08.2010) hlustaði Molaskrifari á endurtekinn auglýsingaþátt ferðaskrifstofunnar Iceland Express í Útvarpi Sögu   í umsjón Ásgerðar Jónu Flosadóttur,sem  fræg er af verkum  sínum hjá  Mæðrastyrksnefnd (sjá t.d. grein í Morgunblaðinu 30.11.2003), innan  Frjálslynda flokksins  og raunar víðar. Tilefni  þáttarins var viðtal við Óttar Guðmundsson lækni um Póllandsferðir. Auglýsingaupptalning  umsjónarmanns í upphafi þáttarins var svo yfirgengileg,  að Óttari lækni greinilega ofbauð , því umsjónarmaður missti út úr sér: – Nú hristir læknirinn   höfuðið ! Líklega hefur honum þótt taka í hnúkana, þegar konan fór að tala um læknisfræði og lækningamátt  snákaolíu  og Kínalífselexíra,  sem hún var auglýsa og ekkert komu Iceland Express eða Póllandi við. Landlæknir ætti að athuga þessar háskalegu fullyrðingar. Það gæti verið  til væri fólki sem tryði konunni.

Allt sem Óttar sagði um Pólland   var hinsvegar  prýðilegt og fróðlegt. Þáttur  umsjónarmanns var eins og  við var að  búast.   Hún fann sér  tækifæri til að nefna  vesaling minn  til sögunnar, þótt ekki litgreindi hún sálu mína  að þessu sinni. Í heild var þátturinn  staðfesting á  öllu því sem Molaskrifari hefur áður  sagt. Hann langt  fyrir neðan virðingu nokkurs  fjölmiðils,sem  veita vill áheyrendum heiðarlega þjónustu. Það er kannski  ekki ofarlega á  lista hjá Útvarpi Sögu. Forstjóri  ferðaskrifstofunnar Iceland Express er  stjórnarformaður svokallaðrar Fjölskylduhjálpar Íslands, einkafyrirtækis , þar sem Ásgerður Jóna Flosadóttir situr í forstjórasæti, þegar  hún er ekki á flugi  með Iceland Express.  Líklega  á ódýrari farmiðum en almenningi gefst kostur á að kaupa. 

Kannski á það eftir að renna  upp fyrir forstjóra Iceland Express að  konan er ekki traustvekjandi talsmaður  fyrirtækis hans og ólíkleg  til að færa honum farþega á færibandi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>