Úr kófinu austur í Moskvu sendi Bjarni Sigtryggsson Molavin eftirfarandi:
„
mbl.is: „Norðmaðurinn sem fannst látinn í Paradísardal í Syðri-Straumfirði á austurströnd Grænlands á mánudaginn…“
Nákvæmni í staðarlýsingum er þakkarverð, en hún verður þá að vera rétt. Hér ruglar Mbl. saman austurströnd og vesturströnd Grænlands. Auk þess minnir mig að talað hafi venjulega verið um Syðri-Straumsfjörð en ekki Straumfjörð. Um liðna helgi áberandi rangt farið með staðsetningu í frétt af árekstri margra bíla í Skagafirði. Ýmist sagt vera rétt hjá Varmahlíð eða rétt við Öxnadalsheiði. Stór Íslandskort eiga að vera til á vegg á hverri fréttastofu.“ Satt segirðu,Bjarni, og menn eiga að gaumgæfa kortin. Bjarni hefur skýra sýn á tunguna þótt skyggni sé ekki mikið austur þar.
Guðmundur Kristjánsson velunnari Mola sendi eftirfarandi:
„Gat ekki stillt mig um að vekja athygli á geislandi ritsnilld þeirra á Mogga:
Fyrirsögn (11.08.2010) Slóvakar neita að lána Grikkjum. Landsþing Slóvakíu hafnaði í dag þátttöku í næstu greiðslu á sameiginlegu láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópusambandsins til Grikklands. Lánið á að koma í veg fyrir að Grikkir greiði ekki skuldir sínar. Grikkjum er semsagt veitt lán til að geta greitt skuldir sínar og Slóvakar vilja ekki vera með !“ Rétt er það, Guðmundur, það geislar af þessu um langa vegu ! Svo ætti nú fremur að tala um þjóðþing Slóvakíu, en Landsþing.
Nú er í auglýsingum talað um rapsolíu, olíu sem unnin er úr repjufræjum. Við eigum að sjálfsögðu eins og bent hefur verið á að kalla þetta repjuolíu. Einhverjum kann að finnast það óþjált orð. Það venst. Gömul saga er af því að vegfarandi vestanhafs sá fólk álengdar við störf á akri, kallaði til þess á ensku og spurði hvað verið væri að rækta. Honum brá, þegar svarað var hátt og skýrt: Rape!
visir.is (10.09.2010): … þegar að hún datt í heitt vatn sem hafði fallið úr hvernum Strokki. Og meira úr sömu frétt:..að reyna að koma málum tengdu Geysissvæðinu í betra horf. Og enn meira úr sömu frétt: … að setja upp skilti sem vari við hættuna af hverunum. Ekki mikið reynt að vanda sig ! Fréttin var reyndar frekar stutt.
Skildu eftir svar