Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (24.09.2010) var sagt frá lokum hvalvertíðar. Sagt var um langreyði, sem komið var með að landi í Hvalfirði: Lokið er við að flensa hann. Hvalaheitið langreyður er kvenkynsorð. Þessvegna hefði átt að segja, að lokið væri við að flensa hana. Þetta hefur víst verið nefnt hér áður.
Fréttastofa Ríkisútvarpsins er svo föst í fortíðinni, að þar eru engar fréttir klukkan 12 á hádegi á sunnudögum. Þeir sem þá vilja hlusta á fréttir verða að stilla á Bylgjuna. Ótrúlegt.
Í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins (25.09.2010) var sagt: Málflutningur í nokkrum prófmálum vegna málsins hefjast í héraðsdómi 15. október. Hvernig sleppa svona villur alla leið inn í stofu til okkar ?
Í mbl.is (24.09.2010) er bæði í frétt og í fyrirsögn talað um brimrótarfyrirbæri , sjaldséð brimrótarfyrirbæri. Eignarfall orðsins brimrót er brimróts. þegar talað um rót í grasafræði , — er eignarfallið rótar.
Meira úr mbl.is (25.09.2010): Hjúkrunarkona í bandaríska hernum sem var rekin fyrir að vera samkynhneigð er frjálst að snúa aftur í herinn. Hjúkrunarkonu er frjálst. Ekki hjúkrunarkona er frjálst. Segja mætti einnig, að hjúkrunarkonan sé frjáls að því að ganga aftur í herinn
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins var fjallað um starfsemi Rauða kross Íslands og um símtöl um beiðnir um aðstoð: Þau hafa fjölgað á þessu ári. Rétt væru að segja, að þeim, símtölunum , hefði fjölgað. Síðan sagði fréttamaður að dregið hefði úr hjálparbeiðni.Hér hefði átt að nota fleiritölu og tala um að dregið hefði úr hjálparbeiðnum.
Það var fleira sem var ekki eins og það átti að vera í þessum hádegisfréttatíma frá Estaleitinu. Þar var sagt frá fyrirhugaðri málshöfðun félaga úr Abba-hópnum vegna notkunar á einu af lögum þeirra. Sagt var: …. eru vanir því að lög þeirra séu notuð í ýmis tilefni. Hefði betur verið sagt ,við ýmis tilefni eða af ýmsu tilefni.
Lög um landsdóm og ráðherraábyrgð stenst, … sagði fréttaþulur Ríkisútvarpsins (24.09.09.2010). Lög er fleirtöluorð. Lög standast, hefði því átt að segja.
Skildu eftir svar