«

»

Molar um málfar og miðla 481

 Heimildamyndin, sem Ríkissjónvarpið sýndi (06.12.2010) um  eldgos á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli, var um margt ágæt. Skrítið var þó, að valið skyldi að sýna fréttainnslög frá Fox  sjónvarpsstöðinni bandarísku , sem ekki er þekkt fyrir áreiðanlega fréttaþjónustu. Nokkrir  hnökrar  voru í þulartexta og jafnvægi  skorti í hljóðblöndun, – bakgrunnshljóð  voru stundum nálægt því að yfirgnæfa þulinn.  Þessi mynd á  þrátt fyrir það eftir að fara víða.

 Skelfilegt var að heyra fulltrúa kjörinn á  stjórnlagaþing, formann stjórnar Útvarps Sögu, líkja íslensku stjórnarfari við  stjórnarfarið í Norður Kóreu (07.12.2010). Það sýnir, að hann veit ekkert í sinn haus um Ísland og enn síður Norður Kóreu.

  Það er  dálítið einkennilegt, að  höfundi forsetasögu Ólafs  Ragnars Grímssonar skuli  greiddar 600 þúsund krónur úr  sjóðnum  Gjöf  Jóns  Sigurðssonar á  árinu 2010. Löngu er komið fram að bankabófarnir í Glitni, Kaupþingi og Landsbanka kostuðu útgáfu og ritun bókarinnar. Bókin kom út fyrir tveimur árum. Hún er mikill og gagnrýnislaus lofsöngur um Ólaf Ragnar og  útrásarliðið,  þar sem bankabófarnir fóru fremstir með sínar Fálkaorður í barminum. Ekki jók bókin hróður höfundar sem sagnfræðings.  Þetta mál kallar á skýringar.  

 Málvenja er að  tala um fallegan fisk,  fallega síld,  eða fallega loðnu. Það er hinsvegar nokkur nýlunda að segja að loðna sé  fögur eins og gert var í Morgunblaðinu (07.12.2010). Á þessu er  munur að mati Molaskrifara.

   Seinni fréttum Ríkissjónvarps  seinkaði um tæpar tíu mínútur að kveldi þriðjudags (07.12.2010). Sjónvarpsstöðvar, sem kunna sig,  segja  frá slíkri seinkun í skjátexta. Hún er  fyrirsjáanleg og  kemur útsendingarstjórum ekki á óvart. Þar er áhorfendum  sýnd kurteisi. Líklega ollu íþróttirnar þessu ,  enn einu sinni. Það tíðkast ekki í Efstaleiti að tilkynna  seinkun dagskrárliða á skjánum. Þulur baðst að  vísu afsökunar á seinkuninni við upphaf frétta eftir  býsna  skrautlega  byrjun fréttatímans.

  Eins og  oft  étur hver  fjölmiðillinn eftir öðrum, þegar tiltekin orðtök komast í tísku. Nú er allt  að  bresta á.  Friður brestur  á og í fréttum Stöðvar tvö (07.12.2010) af Icesave málinu var okkur sagt að  samingar væru að bresta á.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>