«

»

Molar um málfar og miðla 498

Molaskrifari velti  svolítið  fyrir sér  orðunum fjölnota íþróttahús og  komst að þeirri niðurstöðu  að nóg væri   að tala um íþróttahús. Sleppa mætti orðinu  fjölnota. Ekki er þetta   stórmál. En Molaskrifara fannst taka í hnúkana, þegar hann í hádegisútvarpi Ríkisútvarpsins heyrði fréttamann  segja: Yfirbyggð fjölnota íþróttahús hafa risið í nokkrum sveitarfélögum á undanförnum árum.?  Yfirbyggð fjölnota íþróttahús ? Eru til óyfirbyggð hús ?  Er það ekki  þakið, sem gerir fjóra veggi að húsi?  Eru þá  íþróttavellir óyfirbyggð íþróttahús?  Þarna skortir eitthvað á skýra hugsun, að ekki sé  meira sagt.

„Við tókum mikla áhættur og þeir borguðu sig,“segir Seang Chau, (mbl.is 11.01.2011). Mogginn bregst ekki. Svolítið meira um Moggann. Í Morgunblaðinu sama dag er frétt um að síðustu endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagsstöðu Íslands sé lokið. Flestum þykir þetta líklega áfangi og talsverð frétt. Eindálkur inn við kjöl á annarri síðu er fréttamat Moggans. Moggi bregst heldur ekki í því að gera lítið úr því sem gengur vel eða sæmilega hjá núverandi stjórn, þegar flórinn er mokaður eftir ástmegi blaðsins. Á fjórðu síðu er frétt um deilur innan VG. Þar er enn hlúð að því sem Moggi kallar „órólegu deildina“ og notar gæsalappir til að gefa kynna að kannski sé þetta alls ekki réttnefni.

   Í fréttum Stöðvar tvö  var (09.01.2011) ítrekað  talað um öryrkjabótakerfið. Til þessa  hefur þetta verið kallað örorkubótakerfið og er ástæðulaust að breyta því.  

  Enskuslettur vaða nú uppi í  auglýsingum í Ríkissjónvarpinu. Þar er (09.01.2011) talað um að smæla framan í heiminn og    spurt: Ertu  dídjei (dj) ? Þetta dídjei er ensk skammstöfun (disc jockey), plötusnúður ( fínt orð). Skammstöfunin  dj…   á íslensku þýðir hinsvegar allt annað (djöfull). Þegar  auglýsingapeningar eru annarsvegar lætur  Ríkisútvarpið okkar málvöndun lönd og leið. Það er miður.

  Í ágætu rabbi um daglegt  mál á  Rás eitt (10.01.2011)  var nefndur til sögunnar  Sigurjón á  Álafossi í tengslum við  orðið værðarvoð ( frábært orð) sem hann notaði um ullarteppin ágætu  frá Álafossi.  Bæði umsjónarmaður og  Aðalsteinn Davíðsson cand. mag.  sögðu  Sigurjón í Álafossi og áttu þá  við  verslunina, sem lengst af  var á horni Þingholtstrætis og Bankastrætis. Sigurjón á Álafossi finnst Molaskrifara betra. Hann var alltaf  fremur kenndur við staðinn en  verslunina. Sigurjón var snjall auglýsingamaður. Veit ekki betur en hann hafi smíðað slagorðið: Kaupirðu  góðan hlut , þá mundu hvar þú fékkst hann.  Þegar honum gekk illa að selja aðgang að  danspalli á útiskemmtun á Álafossi er  sagt að hann hafi kallað: Næsti hálftími verður þrjú kortér.  Snjall sölumaður Sigurjón.

 Íþróttadeild  Ríkissjónvarpsins er ótrúlegt apparat. Nú er  byrjað að sýna   frá  amerískum  fótboltaleikjum í  fréttum. Sú íþrótt er ekki iðkuð á Íslandi og  þeir eru örugglega ekki margir sem kunna leikreglurnar til hlítar í þessari íþrótt. Ólíklegt er að nokkur áhugi sé  hér á landi  fyrir þessu efni.  Ákvörðun hefur  greinilega verið  tekin í Efstaleiti um að  troða  þessu ofan í kok áhorfenda og skapa  spurn eftir nýrri íþróttagrein, nýju efni.

 Í Molum hefur áður verið  vikið að óþolandi óstundvísi í dagskrá Ríkissjónvarpsins. Hinn prýðilegi þáttur um  Diddú, Sigrúnu Hjálmtýsdóttur  (09.01.2011) byrjaði fimm mínútum seinna en  auglýst var. Þetta óþarfi. Þetta er óvirðing við áhorfendur og subbuskapur. Það er enginn vandi  fyrir þá sem stjórna dagskránni að  virða  tímamörk. Það er til dæmis gert á Rás eitt. En til þess þarf vönduð vinnubrögð og metnað til að gera vel.     Til samanburðar skal  nefnt að listaþáttur  þáttur  NRK2  Hovedscenen þetta sama kvöld var auglýstur klukkan 2010. Hann hófst á mínútunni klukkan 2010.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>