«

»

Molar um málfar og miðla 499

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (11.01.2011) las þulur án þess að hika: Kaup Kínverja hefur engin  áhrif á …  Orðið kaup er  hér fleirtöluorð og þess vegna hefði þulur átt að segja: Kaup Kínverja  hafa engin áhrif á ….Verð á 95 oktan bensíni kostar nú … las  þulur  sömuleiðis án þess að hiksta í sexfréttum Ríkisútvarpsins (10.01.2011). Verð kostar ekki. Hér hefði verið betra að  segja: Verð á  95 oktan bensíni er nú….  Of margir í Efstaleitinu  eru, að því er virðist, með laskaða máltilfinningu.

  Málblómin voru mörg í fréttum Stöðvar tvö  á mánudagskvöld (10.01.2011). Þar var meðal annars sagt: Ekki leggja  allir trúnað við…í merkingunni ekki  trúa allir. Talað er um að leggja  trúnað á eitthvað , að trúa einhverju.  Síðan var talað um að versla  bakkelsi.  Það er eins og fréttamenn Stöðvar tvö geti  alls ekki gert greinarmun á sögnunum að versla og  að kaupa. Þær merkja ekki það sama.  Sagt var, að flugslys hefði orðið í  miklum snjóbyl. Af hverju ekki í stórhríð  eða mikilli snjókomu? Það er ekki  íslenskulegt  að tala um mikinn snjóbyl. Loks var frétt um vegagerð á   Vestfjörðum.  Í inngangi  fréttarinnar var sagt, að vegurinn  lægi í gegnum hlaðið á tilteknum bæ.  Betur var þetta orðað í fréttinni, er fréttamaður sagði að vegurinn lægi  um bæjarhlaðið.

Jafnágætur félagsskapur og SÍBS er og alls góðs maklegur, finnst Molaskrifara „vinarauglýsingar“ happdrættis SÍBS einstaklega væmnar. Molaskrifari hefur átt miða í happdrættinu frá því að það var sett á laggirnar og virðir það sem þessi samtök hafa vel gert, sem er margt og mikið.

 Margt er  hnýsilegt í  tilvitnanabókinni,  sem  Hannes Hólmsteinn  sendi frá  sér fyrir jólin. Það er ekki öllum gefið að   setja saman svona bók með pólitískri slagsíðu en Hannesi Hólmsteini hefur tekist það.  Engu er líkara  en  úr  hópi seinni tíma  Íslendinga hafi  fólkið  fyrst verið valið , svo leitaðar uppi tilvitnanir. Er Molaskrifari blaðaði í bókinni fann hann  strax  eina villu.  Halldór Blöndal orti ekki vísuna snjöllu,sem honum er eignuð:

Hver er þessi eina á ,

sem aldrei frýs ?

Gul og  rauð og græn og blá

og  gjörð af SÍS.

  Halldór Blöndal er snjallhagyrðingur, en hann orti ekki þessa vísu. Hún er eftir  Pétur B. Jónsson  sem lengi var starfsmaður Iðunnar á Akureyri og áin því verið honum nærtækt yrkisefni, en hún breytti litum, þegar verið var að lita ull í verksmiðjunni. Um þetta má  lesa í Morgunblaðinu 18.03.2000. Sá  Halldór Blöndal, sem ég þekki , mundi seint  vilja að honum væri eignuð vísa,  sem annar maður hefði ort. Vandaður fræðimaður hefði spurt Halldór hvort hann hefði ort  vísuna. Ég er viss um að  svar Halldórs hefði verið: Nei.  Vonandi eru  ekki margar villur af sama toga í þessari þykku bók.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>