«

»

Molar um málfar og miðla 514

Morgunblaðið fetar dyggilega í fótspor gamla  kommúnistablaðsins, Þjóðviljans. Minnisstætt er að Þjóðviljinn leitaðist jafnan við að birta sem verstar og hallærislegastar myndir af  pólitískum andstæðingum sínum. Einkum Bjarna Benediktssyni og  í nokkrum mæli Jóhanni Hafstein. Nú leikur Moggi þennan  sama leik gagnvart  Jóhönnu Sigurðardóttur. Svona gera  pólitískir sneplar, ekki alvöru dagblöð. 

 Athygli vekur (27.01.2011) að næstum  fjórðungur leiðara Morgunblaðsins er tilvitnun í Hjörleif Guttormsson.  Hjörleifur hefur aldeilis ekki átt upp á  pallborðið hjá  Morgunblaðinu í áranna rás. Hann og  fleiri   gamlir kommúnistar  eru nú ástmegir  Morgunblaðsins.  Það er  af sem áður var.

 Úr mbl.is (25.01.2011):  Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vill að stjórnvöld geri þinginu grein fyrir því hvernig hún hyggist bregðast við fréttum þess efnis að Hæstiréttur hafi ógilt kosningar til stjórnlagaþings.  Hún stjórnvöld?  

Úr mbl.is (25.01.2011). Hann er  lífsseigur ársgrundvöllurinn: … þar sem vagnar Stætó bs. eiga í hlut, fækkað um nærri helming á ársgrundvelli, eða um 48%.

 Úr mbl.is (25.01.2011): Að sögn slúðurpressunni vestanhafs yfirgáfu margir myndina áður en henni lauk …  seint verður sagt , að þessi setning sé skriffinnum  Morgunblaðsins  eða ábyrgðarmönnum blaðsins til mikils sóma.  Það er verið að  reyna að segja okkur, að  slúðurblöð vestanhafs hafi greint frá því, að margir  hafi farið út áður en  sýningu  tiltekinnar kvikmyndar lauk. 

   Frétt dv.is  (26.01.2011) um sjóslys  fyrir  66 árum   er dæmi um afar  óvönduð vinnubrögð.  Þar er  íslenskur togari ýmist kallaður Egill  rauði  eða Eiríkur  rauði.  Togarinn hét Egill rauði og var frá Neskaupstað. Talað er um áhafnarmeðlimi  en ekki skipverja. Sagt er að togarinn  hafi farist ekki fjarri landi, en hann strandaði undir undir  Grænuhlíð við Ísafjarðardjúp og  brotnaði í tvennt. Fimm sjómenn drukknuðu á strandstað. Tuttugu og  níu var bjargað, sumum  af  sjó öðrum frá landi. Aðstæður voru fádæma erfiðar. Mikið björgunarafrek. Tveir  breskir togarar  fórust í sama veðri  undan Vestfjörðum. Með þeim drukknuðu  fjörutíu sjómenn.  Þá  segir í fréttinni að þessi  hörmulegu sjóslys hafi  orðið  26. janúar  1955  eða fyrir 66 árum. Og reikni nú hver fyrir sig. (Þetta var reyndar leiðrétt er leið á morguninn.) Betra er að sleppa því að rifja upp liðna atburði en að gera það með þessum hætti.  Molaskrifari gerir ekki ráð fyrir að þessi frétt hafi glatt Reyni ritstjóra og skipstjóra að vestan.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>