«

»

Molar um málfar og miðla 516

Úr mbl.is ( 28.01.2011): Innanríkisráðherra Egyptalands varar við að „markvissum aðgerðum“ verði beitt á mótmælum, sem fyrirhuguð eru eftir föstudagsbænir í dag.  Að beita aðgerðum á mótmælum er ekki gott orðalag. betra væri gegn mótmælum,  eða  gegn mótmælendum sem hefðu sig í frammi….

   Ríkissjónvarpið  bauð okkur  viðskiptavinum sínum  að  horfa á tvær kvikmyndir í gærkveldi (28.01.2011). Í prentaðri dagskrá segir  svo um efni hinnar fyrri:  Farandsölukona reynir að  hrista af sér mótelstjóra sem fellur fyrir henni og lætur hana ekki í friði. Um efni  hinnar seinni, segir svo:  Þegar Brúðurin (svo!) vaknar af löngu dái er barnið sem hún bar undir  belti horfið og hún hyggur á hefndir. Er þetta ekki stórkostlegt ? Ætli Stöð tvö sé ekki löngu búin að sýna bæði þessi snilldarverk kvikmyndalistarinnar?

 Molaskrifari byrjaði að hlusta á Rás  tvö snemma á  föstudagsmorgni (28.01.2011), en  slökkti þegar tilkynnt  var að vestur í Hollywood sæti  Sísí, Bíbí, eða  Dídí  við sjónvarpið og drykki í sig slúðrið af fræga fólkinu  eins og það  orðað. Nokkrum sinnum hefur  hér verið vikið að þessu leikaraslúðri ,sem flutt er á hrognamáli,sem ekki er birtingarhæft í neinum fjölmiðli. Málfar  sumra umsjónarmanna á Rás  tvö getur heldur ekki  talist til fyrirmyndar. Er það hlutverk  Ríkisútvarpsins að  úða  svona rugli yfir landsmenn? Held ekki.

Aldrei þessu vant leit Molaskrifari við (28.01.2011) á vefnum,sem Hannes  Hólmsteinn Gissurarson  er sagður skrifa  og kallar AMX. Þar hnaut hann um eftirfarandi: Vandi þingflokksins er ekki síst sá að Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, hefur farið með ströndum og ekki tekið af skarið varðandi hinn „nýja“samning um Icesave… Málvenja er að tala um að fara með löndum , þegar menn fara varlega,  kveða ekki upp úr um eitt  né neitt, segja  fátt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>