«

»

Viskíið flýtur

 Þegar ég hafði lokið við  fylgjast með Barnaby lögregluforingja  leysa flókna morðgátu (honum tekst það alltaf !) í danska  sjónvarpinu í gærkveldi  (05.02.2011)  kíkti ég á BBC One. Svona til að  fullnægja fréttafíkninni fyrir svefninn. Allt  sat við  sama í Egyptalandi. Við hliðina á BBC One á skjálistanum er  BBC Alba, þ.e BBC Skotland. Alba er gelíska heitið  á Skotlandi.

 Þar var þá verið að sýna svart-hvíta breska gamanmynd  frá 1949.  Á ensku heitir myndin Whisky Galore, Viskíið flýtur,( **** í Kvikmyndahandbók Leonards Maltins 2010. Þar er undantekning að mynd fái fjórar stjörnur.)  Hún er gerð   eftir  samnefndri bók eftir  Compton MacKenzie. Bandaríkjamenn breyttu reyndar nafni myndarinnar í  Tight Little Island. ( Tight á ensku, getur þýtt ölvaður (Slangur. Segjum við ekki líka,  að einhver  sé þéttur, þéttkenndur , vel  við skál?) Siðprúðum Könum  hefur   fundist of mikil óregla í upprunalega nafninu ! Myndin var sýnd í Reykjavík. Í Tjarnarbíói minnir mig.

  Myndin segir frá því er  flutningaskip strandaði  við  skoska eyju í seinni heimsstyrjöld, en í farmi þess var mikið af  viskíi. Myndin er drepfyndin. Þar brá  fyrri þekktum andlitum eins og James Robertson Justice og  hinum frábæra Gordon Jackson (1923 – 1990). Hann  hlaut Emmy  verðlaunin fyrir   ógleymanlega túlkun sína á hinum óhagganlega yfirmanni þjónustufólksins í  Upstairs Dowstairs, (Húsbændur og hjú) sem ITV  gerði  1971 til 1975. Alls  voru gerðir 68 þættir  og voru allir sýndir í íslenska  Sjónvarpinu. BBC hefur nú endurgert  þættina, eða gert nýja þáttaröð , öllu fremur og flutt þá til í tíma   fram í aðdraganda  seinni heimsstyrjaldar.  Nóg um það.

 Whisky Galore, eða Viskíið flýtur, er  byggð á  sönnum atburðum. 5. febrúar 1941 strandaði 8000 lesta flutningaskip, SS  Politician ,á sandrifi  við Isle of Erskay, sem er ein  Suðureyja vestan við Skotland. Skipið hafði  látið úr  höfn í Edinborg tveimur dögum áður og hreppt  versta veður. Öll skipshöfnin  komst lífs  af. Fljótlega  komst  sú vitneskja á kreik að um borð í  skipinu væri verulegt  magn  af  viskíi, sem  var ófáanlegt á   eyjunum.  Þar var aðeins  til  sölu bjór, – vegna stríðsins. Viskíið átti að fara  til Kingston á Jamacia og  New Orleans og  afla Bretum gjaldeyris. Eyjaskeggjar  hófu þegar  björgun þessara verðmæta . Fór það björgunarstarf  einkum fram að næturþeli.  Samtals munu þeir  hafa   flutt  í land   260 þúsund  viskíflöskur að því  sumar heimildir segja , en það  er ofsagt. Annarsstaðar segir að   samtals  hafi verið um borð  250 þúsund  flöskur. Seinna  brotnaði skipið. Bjarga tókst öðrum helmingnum og draga til hafnar  en  hinn liðaðist í sundur og hvarf í hafið.

  Það kom fljótlega  í ljós að  ekki var aðeins verið að  sýna  þessa  gömlu kvikmynd  heldur var  fléttað inn í hana  nýrri   viðtölum  við aldrað  fólk ,sem mundi og sumt hafði tekið þátt  í  þessum atburðum. Viðtölin áttu sér stað  hálfri  öld eftir að þetta gerðist.  Viðtölin  voru á gelísku , með  enskum  texta. Einn aldraður maður  sagði: „Fyrst  sóttum við sex  kassa. Héldum að það mundi  nú duga fram á gamlárskvöld. Það kláraðist um næstu helgi!. Næst sóttum við sextíu kassa“.

  Auðvitað komst þetta upp. Nítján menn  voru  dæmdir í fangelsi  frá  20 dögum tikl  60  daga og    til  greiðslu  lágra sekta. Illa gekk  yfirvöldum að finna  viskíið í eynni og  stóðu  eyjarskeggjar þétt saman.  Talsvert miklu var  bjargað (löglega) af farmi skipsins. Í farminum voru meðal annars  8 kassar með  peningaseðlum,sem áttu að fara  til Jamacia. Heimildum ber ekki saman um  hve  mikið fé hafi verið  að ræða.  Innfæddir   litu ekki á  þessa seðla  sem  peninga. Notuðu þá meðal annars  til að þurrka sér  um hendurnar.  Aðeins tókst að bjarga þremur seðlakössum.  Íbúarnir nutu góðs  af fleiru en viskíinu því í  farmi skipsins voru einnig  reiðhjól og  vefnaðarvara af ýmsu tagi. Enn munu kafarar finna viskíflöskur  við flakið á hafsbotni.

  Það var   hin besta skemmtun að horfa á þetta,  og  sjónvarpsglápið þetta  kvöld varð talsvert lengra en ráð hafði verið fyrir gert. Það er óhætt að mæla bæði  með  bókinni og myndinni.  En  svo  það sé á hreinu , þá flaut viskíið bara á skjánum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>