«

»

Molar um málfar og miðla 525

  Dómgreindarleysi hjá  fréttastofu Ríkisútvarpsins  að taka  alvarlega  marklaust  blaður  Samfylkingarþingmanns í Silfri  Egils um að hann  sé  reiðubúinn að  mynda  nýja  ríkisstjórn!  Þetta þótti fréttnæmt í sexfréttum (06.02.2011). Einstakir þingmenn hafa ekkert umboð til stjórnarmyndunar, ekki einu sinni  í Silfri  Egils.

   Góður Landi í Ríkissjónvarpinu á sunnudagskvöld (06.02.2011). Prýðilegur var  þáttur  þeirra  Ara Trausta Guðmundssonar og Valdimars Leifssonar, – Nýsköpun – Íslensk  vísindi í Ríkissjónvarpinu (07.02.2011). Ari Trausti þarf þó að gæta sín á því að spyrja ekki tveggja  spurninga í senn.

    Eignarfall eintölu  með greini  af orðinu beiðni  er beiðninnar , ekki beiðnarinnar eins og  sagt var í sjöfréttum Ríkissjónvarps (07.02.2011). Þá er líka málvenja að  tala  um að bera sigur úr býtum eða  hafa sigur. Ekki  að hafa sigur úr  býtum eins og  sagt var í sama fréttatíma.  Enn skal  vitnað í sama  fréttatíma Ríkissjónvarpsins. Verið var að segja  frá  skógareldum, eða  kjarreldum í Ástralíu ( Það á ekki af Áströlum að ganga,- flóð, fellibylur og skógareldar). …. þó ekki hafi verið jafn vindasamt í dag og  var í  gær, sagði fréttaþulur. Þarna hefði farið betur á að segja: … þó ekki hafi verið jafn hvasst í dag og  var í  gær. Orðin vindasamt og hvasst þýða ekki alveg það sama,  í huga Molaskrifara. Það er vindasamt á  Stórhöfða og þar var mjög hvasst í dag.

 Skrifað er á fréttavefinn  Vísi (07.02.2011): Þá voru tveir ofurölvaðir karlmenn handteknir utan við Skóbúð Selfoss… Nú er líklega ekki hægt að segja að þetta sé rangt til orða tekið. Málvenja er  hinsvegar að segja að menn, sem hafa  drukkið of mikið, séu ofurölvi, ekki ofurölvaðir.

 Í sexfréttum Ríkisútvarpsins   (07.02.2011) var frá því  greint, að   örtröð  væri í Bláfjöllum og langar  biðraðir og því beint  til  fólks, sem  væri  á leið þangað að  snúa við. Þessi frétt hefur  áreiðanlega orðið  einhverjum hvatning  til að drífa sig upp í Bláfjöll. Þannig erum við  Íslendingar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>