«

»

Molar um málfar og miðla 527

Í  íþróttafréttum Ríkissjónvarps (08.02.2011) var talað um að brúa  mun. Málvenja er að tala um að  brúa  bil.  Bilin á að brúa, heitir  ævisaga Halldórs E. Sigurðssonar fv.  þingmanns og ráðherra.

  Það var ónákvæmt orðalag hjá  Agli Helgasyni í Kiljunni að    blaðamaður Guardian hefði verið rekinn frá  Rússlandi. Hið rétta er , að  Luke Harding  blaðamaður  Guardian,  var stöðvaður  í vegabréfaeftirlitinu á  flugvelli í Moskvu, þegar hann var að koma frá Bretlandi. Hann fékk  ekki að  fara inn í landið og  varð að snúa aftur til Bretlands. Hann var gerður afturreka við landamærin.

Ólafur Egilsson sendiherra og áhugamaður um íslenska tungu sendi Molum eftirfarandi: „Getur ekki verið að orðið „erlendis“ sé ofnotað í máli okkar. Áður fyrr finnst mér að það hafi mestmegnis þýtt „í útlöndum“ og verið notað þegar einhver var þar eða verið var að segja frá e-u sem þar gerðist. Nú er mjög tíðkað að tala um að „fara erlendis“ þegar fólk er „að fara til útlanda“. Í frétt um þjófagengi segir: „Þrátt fyrir ungan aldur fundust gögn við leit lögreglu sem benda til að töluverðir fjármunir hafi verið fluttir erlendis.“ Hefði ekki verið betra að segja: „…fluttir til útlanda.“? Hitt hefði samkvæmt merkingunni sem löngum gilti fremur þýtt að fjármunirnir hefðu verið „fluttir [til] erlendis“, þ.e. milli landa utan Íslands.

   Ég minnist þess að hafa heyrt málfræðing segja í útvarpi að rangt sé að tala um að „fara erlendis“.  En það kann að vera spurning, hvort sú ambaga sé að verða svo rótgróin að bráðum teljist „rétt“ mál, svona rétt eins og sú ömurlega málvilla „ég vill“ virðist vera á leiðinni að verða, ef fólk tekur sig ekki á. Vona samt að fólk geri það.“ Hverju orði sannara. Molaskrifari þakkar Ólafi sendinguna og tekur undir hvert orð.
  Ólafur benti  einnig á  fyrirsögn á Eyjunni og  nefndi að  yfirleitt  reyndi  fjölmiðlafólk að vanda sig sérstaklega við gerð  fyrirsagna.  Fyrirsögnin , sem Ólafur  vitnaði til var svona:  Stálu andvirði tugum milljóna í 70 innbrotum. Þetta er auðvitað rangt. Í lagi hefði verið: Stálu tugum milljóna. Nokkru seinna  mátti sjá á Eyjunni, að einhver hafði rankað  við sér. Þá var  búið að breyta fyrirsögninni svona:  Stálu andvirði milljónatuga. Ekkert við þá  fyrirsögn að athuga.
    Stundum er eitt og annað bitastætt á  sjónvarpsstöðinni  ÍNN. Eins og  til dæmis viðtal Ingva Hrafns  við Ragnar Önundarson (08.02.2011). Helsti gallinn er sá, að á ÍNN er sífellt sama fólkið að ræða  við sama fólkið. Það er svolítið þreytandi til lengdar. Svipað  gildir  reyndar um Útvarp Sögu, nema þar er eiginlega aldrei neitt bitastætt. Molaskrifari kveikir  stundum á Útvarpi Sögu bara  til að fullvissa  sig um þar sé annaðhvort  verið að tala um Icesave eða   Stjórnlagaþing. Það bregst ekki. Þar er þröngur sjóndeildarhringur. 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>