«

»

Molar um málfar og miðla 533

 Fréttir  Ríkissjónvarpsins af afgreiðslu  Icesave á Alþingi (16.02.2011) voru bullandi hlutdrægar. Þegar  þingmenn  gerðu grein  fyrir  atkvæði sínu , sáu  áhorfendur og heyrðu  einn þingmann   sem greiddi  ekki atkvæði en  tvo sem voru á móti. Eðlilegt hefði verið  að sýna  þingmenn í  sömu hlutföllum og  atkvæði  féllu. Meira en  tveir þriðju þingheims  greiddu atkvæði  með  samþykkt Icesave. Þetta var hlutdrægt og óskiljanlegt val. Þá  var margendurtekið í fréttum að tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslu hefðu verið felldar „naumlega“.  Enn var  tuðað á þessu í morgunútvarpi  Rásar tvö(17.02.2011), þar sem skoðanir umsjónarmanns  fóru ekki  dult. Morgunútvarp Rásar  tvö er  veikasti hlekkurinn í dagskrárgerð Ríkisútvarpsins. 

Orðið naumlega er gildishlaðið. Hvað er naumlega? Tillögurnar  voru felldar með þriggja  atkvæða mun. Það hefði verið eðlilegast að  segja það í stað þess að leggja mat á  hvort þetta var naumt  eða ekki.  Tillögurnar voru felldar. Það er það eina sem skiptir máli.  Það   skilja yfirmenn fréttastofunnar ekki. Enn eini sinni kolféll fréttastofa Ríkisútvarpsins á prófinu  um fagleg vinnubrögð.  Fréttastofa  Stöðvar  tvö gerði málinu miklu betri skil.

Úr  mbl.is (15.02.2011) : Stjórnendur í breska hernum og breska varnarmálaráðuneytið hefur beðist afsökunar á að 38 hermenn hafi fengið uppsagnarbréf í tölvupósti.  Það er ótrúlega  algengt að  sjá  svona  villur. Hér  ætti að standa:  Stjórnendur í breska hernum  og breska varnarmálaráðuneytið hafa beðist afsökunar …. Það eru stjórnendurnir og ráðuneytið  sem hafa beðist afsökunar.

 Allt í  einu lá himinn og  haf  við,  sagði  þingmaður úr ræðustóli  Alþingis(15.02.2011).    Ja, hérna. Hann   átti við að  mikið hefði legið  við.  Það eru fleiri en  fjölmiðlamenn  sem kunna  ekki að nota íslensk orðtök. Þetta minnir eiginlega á þjófinn, sem kom úr  heiðskíru lofti  hér fyrir mörgum áratugum.

   Sigurður Helgason spyr:  „Það er einn hlutur sem ég tel ástæðu til að minnast á. Það er hversu algengt er að framkvæma allt mögulegt og ómögulegt. Er ekki nóg að segja að kanna fylgi stjórnmálaflokka í staðinn fyrir að framkvæma könnun. Hvað segja menn um þetta?“

 Já, hvað segja  Molalesendur? Molaskrifara  finnst  líka  nóg  um framkvæmdasemi  í  fjölmiðlum.

  Sjónvarpsauglýsing Sjóvár um „feitan tékka“  felur í sér  þjóðernisfordóma. Merkilegt að enginn skuli hafa mótmælt. Hún jaðrar við  einskonar rasisma. Hvað hafa Tékkar gert Sjóvá ? Ekki stálu þeir  bótasjóðnum. Þar voru Íslendingar að verki og þurftu enga hjálp frá öðrum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>