«

»

Molar um málfar og miðla 537

 Fínt orð fréttaskýring.  Óþarfi að tala um fréttaútskýringu eins og gert var í morgunútvarpi Rásar tvö (21.02.2011)

   Undarlegt fréttamat Ríkissjónvarpsins (20.02.2011) að  tala  við  tvo  mótmælendur  við Bessastaði, sem höfðu ekkert fram að færa. Í beinu útsendingunni frá Bessastöðum sagði fréttamaður  Ríkissjónvarpsins að 40 þúsund undirskriftir og   56 þúsund undirskriftir  væru mjög  svipaðar  tölur. Meira að segja máladeildarstúdent  veit  að 40 og  56  eru ekki    svipaðar tölur.  Góð frammistaða Boga Ágústssonar í beinni útsendingu    Ríkissjónvarpsins á sunnudag.

 Þótt Molaskrifari sæi ekki nema lítið eitt af  dagskrá   sunnudagskvöldsins í Ríkissjónvarpinu,   fer ekki milli mála,  að ár og  dagur er síðan  sjónvarpið hefur  boðið  okkur jafn góða  dagskrá, – og  meira að segja  sígilda,  fína  bíómynd með úrvalsleikurum. Guð láti  gott á vita, eins og þar stendur.

  Molaskrifari hefur alltaf svolítið  gaman   af því, þegar ábendingar hans    eru teknar upp í    Daglegu máli í morgunútvarpi Rásar eitt. Eins og þegar  rætt var um  hörmungina, sem í auglýsingu  var kölluð  anti wrinkle  augn roller (21.02.2011) og  skiptir þá engu hvar fyrst var vakin athygli á málinu. Í þessum sama  þætti  var talað um árangurslaust lögtak. Molaskrifari  er ekki  lögfróður, en minnist þess ekki að hafa  heyrt  talað um  árangurslaust  lögtak. Oft er hinsvegar   talað um árangurslaust fjárnám, þegar eignir eru ekki til staðar til greiðslu skuldar.  Hvað segja  lögfróðir um þetta?

Úr  dv.is (20.02.2011)  1200 milljón króna lán Landsbankans til Fjárfestingarfélagsins Ness sem er í eigu Jóhannesar Ólafssonar svipar mjög til annarra lána sem veitt voru á síðustu mánuðunum fyrir efnahagshrunið.   1200 milljón króna lán svipar ekki  til, – 1200 milljóna króna láni svipar til…

 Ákveðið hefur verið að  friða  Langasjó. Það er góð ákvörðun. Eitthvað er  eignarfall orðsins á reiki. Menn segja  og skrifa ýmist  Langasjós,  eða  Langasjóar. Líka mætti segja Langasjávar.  Fróðlegt  væri að vita hver málvenja er í Skaftafellssýslum í þessu efni.

  Í fréttum Stöðvar tvö (20.02.2011) var talað um  mál  væri á  bið og  að stöðva olíuleka frá Goðafoss. Hvorugt  getur  talist til fyrirmyndar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>