«

»

Molar um málfar og miðla 540

Kafarar skoðuðu undir Goðafoss í dag var sagt í  sexfréttum Ríkisútvarpsins (23.02.2011) Sama orðalag var notað í  fréttum Ríkissjónvarps. Þetta  er hálfklaufalegt orðalag. Betra  hefði verið að  segja, að kafarar hefðu skoðað botn Goðafoss í dag.  Í yfirliti um efni sama  fréttatíma var talað um að berja(uppreisnina í Líbíu) á bak aftur. Þetta er  rangt. Talað er um að brjóta á bak  aftur  í merkingunni að bæla niður. Svo  er  líka  hægt að tala um að berja eitthvað niður.  Fleira  var athugavert  við þessa  frétt eins og  til dæmis að tala um…  að höfuðborginni hafi verið lokað af.

Formaður Sjálfstæðisflokksins,sem Morgunblaðið kallaði nýlega vikapilt  Streingríms  J. á  ekki upp á pallborðið í Hádegismóum. Mbl.is  birt  frétt um  Icesave (24.02.2011) sem að meginefni var viðtal við Árna Pál Árnason. Í niðurlagi fréttarinnar var svo ein lína: Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins tekur í sama streng.  Öðruvísi mér áður brá.  

  Það var mikil uppsláttarfrétt á Stöð tvö (22.02.2011) að  Atlanta  flugfélagið  væri að flytja hergögn og  líklega vopn  fyrir Bandaríkjaher til Afghanistan.  Kvöldið eftir varð  fréttastofa  Stöðvar  tvö að éta þetta allt ofan í sig. Fréttin reyndist tilhæfulaus.    Þegar fréttastofan var að bera þetta til baka var talað um innihald flugvélanna. Þar hefði farið betur á því að tala um farm  flugvélanna.

  Í  fréttum Ríkissjónvarps (23.02.2011)  var tekið svo til orða:  Helmingur þeirra hugmynda…hafa átt  viðkomu… Betra hefði verið: Helmingur þeirra hugmynda …. hefur haft viðkomu   eða   er kominn frá …Svo var sagt:  Hugmyndahús háskólanna verður hinsvegar lokað næsta mánudag. Betra  hefði verið: Hugmyndahúsi háskólanna verður hinsvegar lokað á mánudaginn (kemur).

 Frétt Stöðvar tvö (23.02.2011) um uppsagnir karla og kvenna á heilbrigðisstofnunum víðvegar um landið var botnlaus. Okkur var sagt, að  15 körlum og  92 konum hefði verið sagt upp. Okkur var hinsvegar ekki sagt hve margir  karlar og hve margar konur  störfuðu við þessar stofnanir áður en uppsagnir komu til framkvæmda..  Þess  vegna vissum við ekkert um hvort hlutfallslega fleiri konum en körlum hefði verið sagt upp.  Undarlega slök vinnubrögð.

   Merkilegt hvað Ríkissjónvarpinu gengur illa að láta seinni fréttir  hefjast á réttum tíma (23.02.2011) þótt ekkert hafi borið út af í dagskránni.  Það þarf að fá fólk   sem kann á klukku til að stjórna  útsendingunni.

 Fínt  viðtal í Kiljunni við Unu Margréti Jónsdóttur, sem  unnið   hefur merkilegt menningarstarf   með söfnun   og  rannsókn söngvaleikja.  Molaskrifari tekur undir  allt  sem  þau  Páll Baldvin og Kolbrún sögðu um  Fátækt  fólk Tryggva Emilssonar.  Seilist fljótlega upp í hillu  til að endurlesa þá góðu bók.

   Mjög  góður pistill Kolbrúnar Bergþórsdóttur í Morgunblaðinu (24.02.2011).  Hún  veltir því fyrir sér hvort  fyrrum andstæðinga Ólafs Ragnars snúist til varanlegs fylgis við hann. Það eru kannski  svona innanbúðarhugleiðingar. Kolbrún greinir ástandið rétt: Á Bessastöðum situr einstaklingur sem  trúir fyrst og fremst á  sjálfan sig og  eigið ágæti og sér fátt annað.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>