«

»

Molar um málfar og miðla 564

Úr dv.is (22.03.2011): En nú sé staðan sú að fiskur  sé orðinn svo dýr að samtökin hafa ekki fjármagn til að kaupa þennan mikilvæga fæðuhóp fyrir skjólstæðinga sína….   Nú er fiskur sem sagt orðinn fæðuhópur.  Molaskrifari  viðurkennir, að orðið  fæðuhópur  hefur  hann aldrei  heyrt  áður  og hallast að því að  það sé  bara rugl.

Bandarísk herþota  hrapaði til jarðar í Líbíu. Í fréttum Stöðvar tvö  (22.03.2011)  var sagt að talið væri að vélarbilun hefði komið upp í þotunni. Betur var þetta orðað í fréttum Ríkissjónvarpsins en þar var sagt: Talið er að vélarbilun hafi grandað þotunni.

Molaskrifari lærir  ekki að meta  það orðalag, þegar sagt  er í Ríkisjónvarpinu  við upphaf íþróttafrétta, að  nú sé íþróttafréttamaðurinn kominn með sneisafullan íþróttapakka.  Pakki getur ekki verið sneisafullur. Það er ekkert flókið. Þetta  segir  Ríkissjónvarpið okkur  samt aftur og aftur.

Í fréttum Stöðvar tvö (22.03.2011) var sagt: … og strákarnir í 1860, sem loka munu kvöldinu.  Ágæti fréttamaður, sem þetta  sagðir: Orðin eru íslensk  en þetta er  ekki íslenska. Það er  ekki íslenska að loka  kvöldi.  Það  er aulaþýðing úr ensku.

Á dv.is er talað um Sognfjarðarfylki  í Noregi.  Fylkið  heitir á   norsku Sogn og Fjordane. Sognfjarðarfylki er ekki til.

 Á mbl. is  er skrifað (23.03.2011): Vaxtarhormónum að andvirði tugir milljóna var stolið úr lagerhúsnæði í bænum Kastrup í Danmörku.  Hér hallast Molaskrifari að því að segja  hefði átt: Vaxtarhormónum að andvirði tuga milljóna var stolið…

Mikið var rifrildið  við Ragnar Önundarson í Kastljósi (22.3.2011)  lítið áhugavert sjónvarpsefni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>