«

»

Molar um málfar og miðla 576

 

Eftirfarandi frétt var á bls. 2 í Morgunblaðinu og á mbl.is (04.04.2011): Dash-flugvél frá Flugfélagi Íslands hæfði svan á flugi við flugtak frá Ísafjarðarflugvelli í gærmorgun með þeim afleiðingum að svanurinn féll særður til jarðar. Að sögn sjónarvotta, sem voru í hóp-kajakferð rétt við flugvöllinn, var flugvélin rétt búin að draga inn hjólin þegar svanurinn kom aðvífandi. Þeir sögðu jafnframt að aðeins hefði munað hársbreidd að svaninum tækist ekki að sveigja frá hreyfli vélarinnar.  Þessi  frétt er  skrifuð  af einstakri snilld.  Flugvélin hæfði svan sem kom aðvífandi og aðeins munaði hársbreidd að  svaninum tækist ekki að sveigja frá  vélinni!    Snilli þeirra Moggamanna eru  engin takmörk sett, en þeir eru hittnir flugmennirnir hjá Flugfélagi Íslands.

 Í íþróttafréttum Stöðvar  tvö (04.04.2011) var  talað um að lýsa   gríðarlegri virðingu gegn  einhverjum,  átt var við að einhverjum væri  vottuð  virðing.

 Fréttamaður Ríkissjónvarps (04.04.2011) talaði um góðan þorskafla í Faxaflóa og  sagði, að netin hefðu verið úttroðin af  fiski. Þetta  orðalag hefur  Molaskrifari aldrei heyrt.  Þegar vel aflast í net    er talað um að netin séu bunkuð. Netin  voru bunkuð af þorski. Molaskrifari hefur ekki fundið þess dæmi að talað sé um úttroðin net af þorski.

 Það var engin  amböguþurrð í  sexfréttum Ríkisútvarpsins (04.04.2011). Þar var sagt: … helsta vandamál skólamáltíða á Norðurlöndunum  er …. (allsstaðar er hægt að finna vandamál), hafa stefnt hátt á annan tug háttsettra manna, hafast við bág kjör,ásakanir ,sem gerðar hafa verið á hendur, virkjunin verður staðsettt… Það væri heillaráð, ef málfarsráðunautur   stundum læsi handritabunkann, áður en hann er lesinn  fyrir okkur.      

 

Hér var á  dögunum rætt um   hvort  segja  ætti í eignarfalli  fleirtölu viðræða  eða viðræðna. Gamall skólabróðir  Molaskrifara kann enn  málfræði, sem hann lærði í  fyrsta bekk í gagnfræðaskóla, en þá lásu allir íslenska málfræði  eftir Björn Guðfinnsson: ,, Í þeirri bók, er athugagrein við nafnorðabeygingar, sem hljóðar svo: Veik kvenkynsorð, sem enda á a í nf.et. enda á –na í ef.ft. nema þau, sem enda á a í nf.et. og hafa hvorki g né k í stofni.

Svona reglur lærði maður þá utanað  og þær sitja í skallanum  á manni eftir 61 ár!”   Molaskrifari getur ekki sagt annað en þetta sé vel af sér vikið.

Umfjöllun Kastljóss um Icesave  auglýsingar (04.04.2011) var ekki merkileg. Hinsvegar má ekki á milli sjá hvor er verri hákarlsauglýsing Já-manna eða  barnaánuðarauglýsing  Egils Ólafssonar, sem er Nei-maður.  

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Harpa Björnsdóttir skrifar:

    Ræða er bæði til í eintölu og fleirtölu, þar af leiðandi viðræða líka, sbr. viðræður. Viðræður í ft enda á -na í ef = viðræðna, sbr, vera kallaður til viðræðna……hægt að sjá þetta nánar á orðabók háskólans á netinu…… sem er mjög góður vefur að fletta upp í þegar maður er í vafa, sjá: http://www.lexis.hi.is/ og velja Ritmálssafn á flipanum til vinstri og fara í orðaleit þar…

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>