Kvótafrumvarp ríkisstjórnarinnar, hið minna, var rakkað niður í sexfréttum Ríkisútvarpsins (06.06.2011) þannig að ekki stóð steinn yfir steini. Álitsgjafinn var sagður sérfræðingur við Lagastofnun Háskóla Íslands. Þess var svo getið í framhjáhlaupi í lok fréttarinnar, að sérfræðingurinn starfar undir hatti Háskóla Íslands, en það er Landssambandsíslenskra útvegsmanna, sem greiðir launin hans. Umsögn hans ber auðvitað að skoða í því ljósi. Þeirrar stöðu hans var ekki getið í fréttum Ríkisjónvarpsins þetta sama kvöld. Þess var líka látið rækilega ógetið, þegar fjallað var um þetta sama frumvarp í morgunútvarpi Rásar tvö (07.06.2011). Þar vakti nú ef til vill mesta athygli munnsöfnuður þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Hlustendur eiga heimtingu á að geta metið ummæli sérfræðingsins með þá vitneskju að leiðarljósi að hann er launaður af LÍÚ, Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Þetta voru ekki fagleg vinnubrögð hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins.
Molavin sendi eftirfarandi:
,,DV segir á netsíðu sinni að íslenzkur fangi hafi verið látinn laus eftir fjögurra ára fangelsisvist í Brasilíu: „Karl er nú laus ferða sinna og kominn aftur til landsins. Hann hefur sést á landinu undanfarið og meðal annars í félagsskap Ásgeirs Þórs Davíðssonar, eða Geira á Goldfinger.“
Það er honum áreiðanlega léttir að vera aftur frjáls ferða sinna, en að vera „laus ferða sinna“ kann að hafa eitthvað með núverandi félagsskap að gera”.
Molaskrifari þakkar sendinguna.
Í fréttum Stöðvar tvö (07.06.2011) var sagt frá því að íslensk börn hefðu bætt verulega við þyngd sína á tilteknu tímabili. Svo var sagt að aukið sjónvarpsgláp og tölvunotkun hafi haft mikið um það að segja. Þetta er ekki mjög vel orðað. Betra hefði verið að segja, að aukið sjónvarpsgláp og tölvunotkun væru að líkindum orsakir þyngdaraukningarinnar.
Það fór ekki mikið fyrir fréttaflutningi Morgunblaðsins af endurskoðun fimmtu efnahagsáætlunar AGS fyrir Ísland (07.06.2011). Enda voru fréttirnar frá AGS jákvæðar fyrir land og þjóð og ríkisstjórnina. Það er ekki nokkur ástæða til að segja ítarlega frá slíku að mati þeirra, sem stjórna fréttaflutningi Morgunblaðsins, sem fyrir löngu er hætt að vera marktækur fréttamiðill.
Ágætur pistill Gísla Kristjánssonar frá Tromsö í morgunútvarpi Rásar tvö (07.06.2011). Umsjónarmenn Rásar tvö, sem segjast aldrei hafa heyrt bandaríska stjórnmálamanninn Mitt Romney nefndan á nafn eiga ekki að reyna að spjalla við hlustendur um bandarísk stjórnmál og væntanlegar forsetakosningar þar.. Og þótt umsjónarmenn séu ánægðir með það sem þeir eru að gera, er alveg óþarfi að segja very good við hlustendur áður en lokað er fyrir hljóðnemann. Það var nú kannski slys. En það er góð regla fyrir útvarpsmenn að segja aldrei neitt við hljóðnema, sem ekki er ætlað hlustendum. Það hafa ýmsir farið flatt á að fylgja ekki þeirri reglu.
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
08/06/2011 at 11:53 (UTC 0)
Því skal haldið til haga að það var ekki einn umsjónarmanna morgunútvarps Rásar tvö ,sem sagði very good áður en lokað var fyrir hljóðnermann. Heldur var það gestur þeirra. Leiðréttist það hér með.