«

»

Molar um málfar og miðla 628

 

Það bregst ekki  að hjá Ríkissjónvarpinu í Efstaleiti hefur fótbolti algjöran forgang. Laugardaginn fyrir   Hvítasunnu  var fótboltaumfjöllun  í tæpa þrjá klukkutíma frá klukkan þrjú til klukkan að verða sex.  Auðvitað var sjálfsagt að sýna  beint frá  leik  íslenska landsliðsins gegn  Hvíta Rússlandi. Ekki hefur Molaskrifari á móti því. En af hverju allt þetta kjaftæði á undan og eftir?  Ekki virtist hinsvegar  mikill á hugi á leiknum í Danmörku, því áhorfendur voru sárafáir. En þetta var ekki nóg fyrir  fótbóltafíklana, sem ráða ríkjum  í  Efstaleiti.    Klukkan  hálf  sjö  hófst aftur  fótbolti sem  nú stóð til klukkan að ganga  tíu. Bein útsending  frá  leik Danmerkur og Sviss.  Tveir  fótboltaleikir og fótboltafjas í næstum sex klukkustundir sama  laugardaginn er meira en nóg af því  góða. Lausleg athugun leiddi í ljós að hinar norrænu stöðvarnar eru ekki misnotaðar með þessum hætti.  Leik Danmerkur  og  Sviss hefði sem best mátt geyma og sýna t.d. eftir miðnætti, ef ástæða var til að sýna hann.  Á  þessum besta tíma  kvölds hefði átt að sýna efni sem  höfðar  til fleiri  áhorfenda en  fótboltaleikur  númer  tvö þann daginn. En þetta  er eftir  öðru. Dagskrárstjórn  Ríkissjónvarpsins er  meira en í molum. Hún er í rusli. Íþróttadeildin  hefur lagt stofnunina undir sig.

Það er hneyksli.

Fornleifar fanga  lögreglumann (11.06.2011) er fín fyrirsögn á baksíðu Morgunblaðsins.

Úr dv.is (11.06.2011): Á Alþingi í dag mælti forseti þingsins fyrir því að stofnuð yrði prófessorsstaða til heiðurs Jóns Sigurðssonar.  Til heiðurs Jóni Sigurðssyni ætti þetta að vera.

Yfirborð árinnar Lågen í Guðbrandsdal er nú tekið að sjatna (mbl.is  12.06.2011). Ekki man Molaskrifari betur en hefð sé fyrir því í íslensku að kalla ána Löginn.

Glöggur lesandi  sendi Molum farandi (11.06.2011): Í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag.  ,,Fréttamaður sagði m.a. frá því, að á Akureyri hefði „einn verið tekinn fyrir ölvun undir áhrifum áfengis“.  Í næstu frétt fjallaði fréttakona um eldvirkni í Eyjaálfu.  „Óttast er að jarðhræringarnar geti ollið skriðuföllum“.  Sögnin „að valda“ er ekki einföldust allra íslenskra sagnorða í meðförum.  Mörgum verður fótaskortur á því svelli.”  Rétt er, að   ekki valda allir fréttamenn því að nota sögnina ,,að valda” rétt. Molaskrifari þakkar sendinguna.

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Jú, það er sennilega hárrétt hjá þér, Leifur.

  2. Leifur skrifar:

    Er ekki orðið hvítasunna skrifað með litlum staf?

    Kveðja, Leifur

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>