Í fréttatímum beggja sjónvarpsstöðvanna var rætt við formann Bændasamtakanna, sem fjölyrti að vanda um fæðuöryggi. Staðreynd er að íslenskur landbúnaður er svo háður erlendum aðföngum að hann tryggir þjóðinni ekki fæðuöryggi fyrir fimm aura , ef tekur fyrir aðdrætti erlendis frá. Það á að hlífa okkur við svona bulli. Bændur óttast að fá ekki lengur tollvernd og helming tekna sinna frá skattþegnum landsins. Fréttamaður Stöðvar tvö reyndi að spyrja formanninn um tollvernd og óhagkvæm bú, en fékk eengin svör. Fréttamaður Ríkissjónvarpsins reyndi ekki einu sinni að spyrja. Kranablaðamennskan ,sem Jónas Kristjánsson réttilega nefnir svo, var að venju á fullu.
Íþróttafréttamaður Ríkisútvarpsins sagði í sexfréttum (06.07.2011) um vetrarólympíuleikana 2019, – í dag var ákveðið að vetraólympíuleikarnir fara fram í …. Hér hefði farið betur á að segja , að leikarnir fari fram, ekki fara fram.
Í sexfréttum Ríkisútvarpsins (06.07.2011) var tekið svo til orða að eitthvað skaraðist á við e-ð. Þarna var á-inu ofaukið. Nóg hefði verið að segja að eitthvað skaraðist við e-ð.
Í fréttum Ríkissjónvarps (06.07.2011) var talað um að stinga út moði. Moð er er heyrusl eða salli og er því venjulega mokað út eða sópað. Skán er hinsvegar stungin út. Í sama fréttatíma var talað um þrjá í verkefnastjórninni af tólf meðlimum. Þarna var meðlimunum ofaukið, eins og þeim er nær alltaf.
Einn af íþróttafréttamönnum Ríkissjónvarpsins hefur þann hvimleiða sið að enda oft setningar á einhverri undarlega uppskrúfaðri hækkandi nótu. Þetta er í algjörri andstöðu við eðlilegan talanda og eðlilega hrynjandi málsins. Heyra þetta ekki fleiri en Molaskrifari ? Raunar er nýjasti og yngsti liðsmaður íþróttadeildar Edda Sif Pálsdóttir betur máli farin en flestir karlarnir. Hún hefur líka þægilega rödd og talanda.
Æ algengara er að í auglýsingum sé talað til íslenskra neytenda á ensku. Hagkaup fetar í fótspor Húsasmiðjunnar og tönnlast á ensku orðunum Tax Free um leið og því er logið að lesendum að fyrirtækið sé í aðstöðu til að afnema virðisaukaskatt. Hversvegna banna skattayfirvöld ekki fyrirtækjum að ljúga um skattamál í auglýsingum ? Nýjasta enskuauglýsingin sem skellt er á íslenska neytendur er frá íþróttavöruframleiðandanum Adidas í Fréttablaðinu (07.07.2011) Adidas is all in. Ekki tekur betra við í Mogga þar er heilsíðu aulýsing um Diesel ilmvatn. Auglýsingin er öll á ensku. Kannski er hún ekki ætluð Íslendingum. Í Ríkisútvarpinu auglýsti veitingastaður nítjánda bröns, – þaulvanur þulur hikstaði á þessu. Molaskrifari láir honum það ekki. Bylgjan auglýsir golfmót (held ég) sem kallað er Bylgjan open . Þessi fyrirtæki eiga að skammast sín. Finnst þeim fínna að kynna vörur sínar á ensku fyrir okkur? Þetta minnir á dönskusnobbið fyrir svona hundrað árum.
Moalskrifari sér ekki betur en að Morgunblaðið sé komið inn á nýjar brautir við að selja sig. Í Viðskiptablaði Morgunblaðsins (07.07.2011) er grein sem kölluð er Pistill um markaðsmál. Undir greininni stendur: ,,Greinaröð Morgunblaðsins um markaðsmál er styrkt af Íslensku auglýsingastofunni (www.islenska.is) og Nordic eMarketing (www.nem.is)” Nú geta menn keypt greinar inn í Mogga Það er nýlunda í íslenskri blaðamennsku. Þetta er líklega eitthvað tengt því sem sumir hafa kallað auglýsingahórerí í Útvarpi Sögu.
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
09/07/2011 at 17:38 (UTC 0)
Nei. Það getur ekki dregið úr atburðarás.
Einar Kr. Jónsson skrifar:
09/07/2011 at 15:52 (UTC 0)
Ég hef tekið eftir þessum hvimleiða sið íþróttafrétttamanns Ríkissjónvarpsins að enda oft setningar á einhverri undarlega uppskrúfaðri hækkandi nótu. Hið sama á einnig við um einn veðurfréttamann Ríkissjónvarpsins, sem ýkir þessa uppskrúfaða endingu enn frekar, alveg sérstaklega ef setningin endar á nafnorði. Mjög hvimleitt að heyra þetta og eins og þú segir, er í algjörri andstöðu við eðlilegan talanda og eðlilega hrynjandi málsins. Þar að auki missir maður athyglina á því sem viðkomandi reynir að koma frá sér, því að þetta er svo ambögulegt.
manni skrifar:
09/07/2011 at 14:05 (UTC 0)
Getur dregið úr atburðarás? (Fréttir RUV 09 07 2011 kl 10)
http://dagskra.ruv.is/ras2/4551889/2011/07/09/