«

»

Molar um málfar og miðla 654

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (09.07.2011)   tvísagði fréttamaður,   að hlaupið í Múlakvísl væri í rénum. Það er  rangt. Rénun er rétta orðið og þýðir   minnkun. Þegar  flóð eða hlaup  er í rénun fer það  minnkandi.

Í morgunútvarpi Rásar tvö (11.07.2011) talaði umsjónarmaður um ferjusiglingar á Múlakvísl.   Það var og.  Þar var líka  talað um Fjallabaksleið  nyrðri, sem gegnir hlutverki hjáleið, eins og umsjónarmaður komst að orði.  Fjallabaksleið nyrðri  er   hjáleið,  eða  gegnir hlutverki hjáleiðar,  meðan  Múlakvísl er óbrúuð.

Vakin er athygli á  grein Valgeirs Sigurðssonar varaformanns Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins á bls. 15 í Morgunblaðinu í dag (11.07.2011). Grein sína nefnir  Valgeir:  heitir  Ríkisútvarpið RÚV?   Því miður er greinin  ekki aðgengileg á vefnum.    Ríkisútvarpsins. Allir þeir sem láta sér annt um  Ríkisútvarpið ættu að lesa þessa grein.

Auglýsingastofur spara sér greinilega  prófarkalestur. Það  er  vondur  sparnaður. Þessvegna  sjá lesendur  augljósar villur  eins og þegar  talað er um bólgueiðandi töflur í heilsíðu auglýsingu í Fréttablaðinu (09.07.2011). Það á að  vera  bólgueyðandi.

Úr  dv.is (089.2011). Til að undirstrika það veltu hermennirnir stórum grjótum á aðra götuna á þessum krossgötum. Þessi orð eru eignuð Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra. Molaskrifari veit, að svona orðar Össur ekki hugsun sína.  Hann er enginn bögubósi.

Myndatexti í sunnudagsmogga (10.07.2011):  Ef marka má þessa mynd  tókust tilraunir hertogaynjunnar af Cambridge  vel upp.  Betra hefði verið: Ef marka má þessa mynd  tókust tilraunir hertogaynjunnar af Cambridge  vel. Hertogaynjunni tókst vel upp. 

Úr mbl.is (10.07.2011): Betur fór en á horfðist þegar bíll velti við Kúagerði á Vatnsleysuströnd nú undir hádegi. Þetta er undarlega þrálát meinloka hjá ýmsum fréttaskrifurum. Hverju velti bíllinn ?   Bíllinn valt  við Kúagerði. Hann velti hvorki einu né neinu.  Í sömu frétt segir: Að sögn sjúkraflutningamanna hljómuðu aðstæður illa þegar útkall barst.  Aðstæður hljóma  hvorki vel eða illa. Hér hefði til dæmis mátt segja:  Að sögn sjúkraflutningamanna virtist slysið alvarlegt, virtust aðstæður slæmar, virtist ástandið slæmt.    Aðstæður hljóða aldrei.

 

Talsmaður ferðaþjónustu talaði um háönnina í merkingunni  um háannatímann  í fréttum Ríkisútvarpsins (10.07.2011). Ekki hefur  Molaskrifari áður heyrt   þannig tekið til orða.

Lokun hringvegarins  eftir að brúna tók af  Múlakvísl er    mikið  áfall  fyrir  ferðaþjónustuna. Ekki  bara í nágrenni hamfaranna, heldur um allt land.    Vegagerðin hefur  sagt að það  taki   2-3 vikur á  gera  bráðabirgðabrú yfir kvíslina.  Það er eins og sumir talsmenn ferðaþjónustu geri sér  enga grein fyrir því  að það er ekki áhlaupaverk að gera bráðabirgðabrú yfir jökulfljót. Einn ferðaþjónustumaður eystra, sagði réttilega að   nú töluðu  allir eins og verkfræðingar og þættust allt geta og vita. Töluðu eins og  þetta væri eins eða tveggja daga verk.   Það er eins og  menn  efist um að vegagerðarmenn muni gera sitt besta  til að  flýta verkinu. Þar  er þeim gert rangt til. Íslenskir vegagerðarmenn standa  fyrir sínu. Það hafa þeir margsýnt.   Það er  líka   einkennileg  pólitík hlaupin í spilið, þegar ráðamenn í ferðamálum tala um seinagang stjórnvalda.  Hvað áttu stjórnvöld að gera meira?  Það hefur  komið fram að unnið er og unnið verður dag og  nótt við brúarsmíði og  menn verið kvaddir til starfa,sem komnir voru í sumarleyfi með  fjölskyldum sínum. Það er eiginlega talað eins og þetta sé allt ríkisstjórninni að kenna.

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. manni skrifar:

    Enmitt það sem ég hef oft velt fyrir mér….hvernig getur Vegagerðin sagt eitthvað?Hefði þessi ferðaþjónustumaður kannski átt að sleppa því að tjá sig,og vísa bara á Ferðaþjónustuna?
    „Vegagerðin hefur sagt að það taki 2-3 vikur á gera bráðabirgðabrú yfir kvíslina. Það er eins og sumir talsmenn ferðaþjónustu geri sér enga grein fyrir því að það er ekki áhlaupaverk að gera bráðabirgðabrú yfir jökulfljót. Einn ferðaþjónustumaður eystra, sagði réttilega að nú töluðu allir eins og verkfræðingar og þættust allt geta og vita.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>